Öll fimmtudagskvöld er Hamarinn, ungmennahús Hafnarfjarðar, Suðurgötu 14, lagt undir Spunaspilakvöld. Þá hittist fólk á aldrinum 16-25 ára og spilar m.a. Dungeons & Dragons (D&D) og fleiri spil.
Í spunaspili eins og t.d D&D mynda leikmenn hóp könnuða sem leggja af stað í epískt ferðalag og þræða fantasíuheima. Dungeon-Masterinn er sögumaður spilsins og leiðir söguna. Það tapar enginn eða vinnur í D&D, heldur er þetta ferðalag sem hópurinn fer í saman.
Í grunninn er D&D leikur þar sem frásögnin er í raun aðalatriði og teningar eru nýttir eingöngu til aðstoðar. Allt annað í spilinu er þín ákvörðun; frá því hver þú ert, hvernig þú hagar þér og hvað gerist næst hjá þér og þínum leikmanni.
Sameiginlegi sköpunarkrafturinn í D&D leiknum byggir svo upp sögurnar sem sagðar eru aftur og aftur; allt frá goðsögnum til fáránlegra atvika sem fá þig til að springa úr hlátri.
Mikilvægast er að skemmta sér og aldrei gleyma gullnu reglunni að hópurinn fer aldrei í sundur.
Vel er tekið á móti öllum sem hafa áhuga á að prófa og ekki gerð krafa um neina kunnáttu eða reynslu í spunaspili. Breki Bragason og Atli Freyr Guðmundsson eru starfsmenn Hamarsins og umsjónarmenn Spunapilaskvöldanna og taka vel á móti þér. Það þarf bara að mæta, prófa og hafa gaman.
Sjá nánar um D&D | Dungeons & Dragons á wizards.com
Nánar upplýsingar um ungmennahúsið Hamarinn má fá hér.
Ljósmyndir: Aðsendar/Breki