Vodafone slekkur nú á endurvarpsstöðvum sínum fyrir sjónvarpsútsendingar yfir örbylgju á höfuðborgarsvæðinu. Er þetta gert í samræmi við ákvarðanir Póst- og fjarskiptastofnunar (PFS) um að ráðstafa þeim tíðnum sem notaðar hafa verið til þessara sendinga til notkunar í háhraðafarnetum sem eru í mjög örum vexti.
Upphaflega var ráðgert að lokið yrði að taka kerfið niður þann 3. júlí n.k., en PFS hefur veitt Vodafone frest til 31. júlí nk. til að ljúka verkinu.

Eingöngu er verið að slökkva á sjónvarpsendingum á örbylgju. Dreifing sjónvarps með öðrum leiðum, svo sem um UHF-loftnet og gagnvirkt sjónvarp yfir internetið hefur stóraukist og ættu flestir að geta gert ráðstafanir til að færa sig yfir í slíka dreifingu.
Þeir sem þurfa að gera sérstakar ráðstafanir eru þeir notendur Digital Íslands myndlykla sem hafa séð RÚV+ eða Hringbraut í gegn um þann lykil.
Á vef Vodafone eru upplýsingar um til hvaða ráða hægt er að grípa og hvernig hægt er að hafa samband við fyrirtækið til að fá aðstoð og upplýsingar.
Sjá upplýsingar á vef Vodafone.