Starfsfólk Stekkjaráss fékk viðurkenningu

Fengu viðurkenningu fyrir breytta menningu í útiveru barna á leikskólalóðinni

Leikskólabörn að leik á Stekkjarási

Nú á dögunum hlaut starfsfólk leik­skólans Stekkjaráss viðurkenningu fræðslu­ráðs Hafnarfjarðar. Viður­kenn­ing­una fékk starfsfólkið fyrir breytta menningu í útiveru barn­anna á lóð leikskólans.

Upphaf breyttrar menningar má rekja til hugmynda starfs­manns Stekkjaráss sem er í námi til M.ed. gráðu í leikskólakennara­fræðum. Þessi nemi vildi skoða hvernig hann gæti haft áhrif á menningu leikskólans í útiveru á lóð leikskólans og kom með þá hugmynd til starfsfólks að boðið yrði upp á svo kallaðar útistöðvar tvisvar í mánuði.

Leikið með skugga

Þátttaka og jákvætt viðhorf starfs­fólksins alls sýndi sig með fádæma góð­um undirtektum og virkni á útistöðva­dögum sem hafa einnig yfir­færst á virkni og námsframboð í útiveru í garði alla daga.

Meðal útisöðva má nefna vatnsveitu, froðudiskó, leik með skugga, útikeilu, drullumall, sápukúlur, flugdreka, stafaþrautir og björgunarsveitastöð.

Ummæli

Ummæli