Hraunvallaleikar sem ljúka með gerð risastórs vinadreka

Nemendur á öllum aldursstigum saman í hópum

Þessar stúlkur höfðu farið á föndurstöð og búið til skemmtilega hluti. Ljósmynd: Aron Þór og Kári.

Hinir árlegu Hraunvallaleikar standa nú yfir í Hraunvallaskóla og hefðbundið skólastarf er brotið upp. Hugmyndin með leikunum er að búa til skemmtilegan viðburð þar sem nemendur og starfsfólk eiga góða daga við leik og skemmtun. Tekist er á við fjölbreytt verkefni, þrautir og leiki þar sem allir fá að spreyta sig og stórir og smáir hjálpast að.  Íþróttir, sund og valgreinar verða ekki kenndar þessa daga og allir ljúka sínum skóladegi kl. 13.10.

Nemendur á öllum aldursstigum saman í hópum

Nemendur eru í 66 hópum og eru tveir hópstjórar úr unglingadeild í hverjum hópi. 11-13 nemendur eru í  hverjum hópi og er aldursblöndunin frá 1. upp í 10. bekk. Markmiðið með því er að tengja saman nemendur á mismunandi aldri, efla samskipti og góðan skólaanda.

Þrjár fastar stöðvar eru í gangi alla þrjá dagana.  Nemendur sem völdu þær stöðvar vinna að ákveðnu verkefni allan tímann og fara ekki á aðrar stöðvar. Nemendur á miðstigi áttu kost á að velja sér leiklistar- eða fjölmiðlastöð. Á unglingastigi var hægt að velja hljómsveitarstöð.

Þarna voru krakkarnir að gera dúka. Ljósmynd: Sveinbjörg og Svandís.

Á föstudaginn er sveigjanlegur skóladagur. Sá dagur verður nokkurskonar uppskeruhátíð Hraunvallaleikanna þar sem nemendur sjá afrakstur föstu stöðvanna.

Risastór vinadreki

Farið verður út á Drekavelli þar sem búa á til risastóran vinadreka. Fremst verða nemendur með drekahöfuð sem búið verður til á einni stöðinni og á  eftir koma allir nemendur og starfsfólk skólans í halarófu. Allir eru hvattir til að koma klæddir í drekalitunum þennan dag, þ.e. rauðu, gulu, gylltu eða appelsínugulu til að drekinn verði sem glæsilegastur.

Fjölmiðlahópar skrifa Varlafréttir

Nokkrir hópar krakka taka myndir og skrifa um  það sem er að gerast en þetta má lesa á síðunni þeirra Varlafréttir.

Ummæli

Ummæli

Skilja eftir athugarsemd

Please enter your comment!
Please enter your name here