fbpx
Föstudagur, október 4, 2024
HeimFréttirBiðla til starfsfólks og foreldra að sýna útfærslum á sumaropnun leikskóla þolinmæði

Biðla til starfsfólks og foreldra að sýna útfærslum á sumaropnun leikskóla þolinmæði

Skólastjórnendur og fulltrúar minnihlutans vilja fresta sumaropnun og skoða málið betur

Fulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknar og óháðra biðluðu, á fundi fræðsluráðs í morgun, til starfsfólks og foreldra leikskólabarna að sýna útfærslum á sumaropnun leikskóla þolinmæði.

Á fundinum var lögð fram ályktun Félags stjórnenda leikskóla þar sem tekið er undir ályktun stjórnar Félags leikskólakennara frá 13. febrúar sl. og er fræðsluráð Hafnarfjarðar hvatt til að falla frá ákvörðun sinni um að starfrækja leikskóla allt sumarið árið 2021.

Segir í bókun fulltrúa meirihlutans að mikill vilji meirihlutans sé til þess að formgera og útfæra breytinguna í sátt og samlyndi bæði við þá sem þiggja þjónustuna og þá sem hana veita.

Segja þeir þær athugasemdir, ábendingar og áhyggjur sem fram hafa komið á undanförnum vikum verði teknar inn í þá vinnu sem framundan er í starfshópi sem skipaður verður í á næsta fundi ráðsins.

Ítreka mikilvægi þess að eiga í góðu samstarfi við starfsfólk leikskólanna

Fulltrúar Viðreisnar, Samfylkingar, Bæjarlistans og Miðflokksins ítrekuðu mikilvægi þess að eiga í góðu samstarfi við starfsfólk leikskólanna við svona stórar ákvarðanir. Segja þeir að í ljós hafi komið mikil andstaða meðal starfsfólks og stjórnenda við þessa framkvæmd og því væri eðlilegt að falla frá ákvörðuninni á þessu stigi þar til starfshópurinn hefur fengið færi á að vinna sína vinnu.

Fulltrúi leikskólastjóra ítrekaði á fundinum fyrri bókun sína varðandi sumaropnun leikskólanna og tekur undir ályktun FSL og hvetur fræðsluráð til þess að falla frá ákvörðun sinni um að starfrækja leikskóla allt sumarið árið 2021.

í bókun Félags stjórnenda leikskóla frá 2. mars sl. segir:

„Stjórn Félags stjórnenda leikskóla tekur undir ályktun stjórnar Félags leikskólakennara frá 13. febrúar 2020 og hvetur Fræðsluráð Hafnarfjarðar að falla frá ákvörðun sinni um að starfrækja leikskóla allt sumarið árið 2021.

Starfsmannahald í leikskólum er þungt og mun þyngjast enn frekar við þessa ákvörðun og álag á stjórnendur, kennara og annað starfsfólk mun aukast til muna. Fagfólk mun enn frekar horfa til annarra skólagerða til að komast í betra starfsumhverfi, starfsumhverfi með upphaf og endi á skólaári.

Þessi ákvörðun fræðsluráðs er tekin í litlu sem engu samstarfi og samráði við hagsmunaaðila og í andstöðu við stjórnendur.

Stjórnendur leikskóla í Hafnarfirði benda á að ekki er hægt að ganga út frá því að börnin verði á sinni deild með sína kennara yfir sumarmánuðina og faglegt starf mun raskast yfir lengri tíma en venjulega yfir sumartímann, því allir starfsmenn munu að öllum líkindum fara í 30 daga (6 vikna) orlof.

Að lokum er vert að minna á að samkvæmt lögum nr. 95/2008 er leikskólinn fyrsta skólastigið en ekki þjónustustofnun, leikskólakennurum fer fækkandi og leikskólinn er viðkvæmur vinnustaður.

Við hvetjum því Hafnarfjarðarbæ til að finna aðrar leiðir til að þjónusta bæjarbúa og börn þeirra yfir sumartímann.

Mögulegar leiðir eru t.d. aukið frístundarstarf í samstarfi við íþróttafélög eða önnur félög eða opnir gæsluvellir með öðru starfsfólki en starfsfólki leikskólanna.“

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2