Núverandi húsnæði undir skjalasafn Hafnarfjarðarbæjar er með öllu óviðunandi en stærstur hluti þess er nú hýstur í Engidalsskóla, auk þess sem skjöl eru geymd í kjallara St.Jó og víðar í bænum.
Eftir að hafa um langt skeið leitað framtíðarlausnar fyrir skjalavörslu sveitarstjórnarskrifstofu Hafnarfjarðar sem uppfyllir þær skyldur bæjarfélagsins sem kveðið er á um í lögum um opinber skjalasöfn, lögum um persónuvernd, sveitarstjórnarlögum, upplýsingalögum og ýmsum reglum og reglugerðum hefur nú verið ákveðið að taka húsnæði að Hvaleyrarbraut 39 á leigu.
Margir þekkja þetta hús þar sem gluggasmiðja var til húsa en þar varð stórbruni í nóvember 2018. Húsið hefur verið endurbyggt og bætt ofan á það hæð.

Hafnarfjarðarbær tekur á leigu iðnaðarbil í enda húsnæðisins sem verið er að endurnýja. Í minnisblaði sem lagt var fram í bæjarráði í morgun segir að aðgengi sé mjög gott að húsnæðinu frá afgirtu bílaplani. Aðstaða fyrir skjalavörð sé einnig góð fyrir húsnæði af þessu tagi, sem sé mikilvægt út frá vinnuvernd.
Húsnæðið er tiltölulega rúmgott sem gerir að það verkum að ekki er þörf á að fjárfesta í hjólaskápum auk þess sem gott rými er fyrir vinnslu og flokkun gagna.
Fyrir liggur leigusamningur sem báðir aðilar hafa fallist á og er þar m.a. kveðið á um að í leigugjaldi felist frágangur og uppsetning öryggisbúnaðar sem uppfylli þau skilyrði sem Þjóðskjalasafn geri til varðveisluhúsnæðis fyrir skjöl. Leigukjör eru sambærileg og á iðnaðarbilum annars staðar í Hafnarfirði og öðru geymsluhúsnæði bæjarins.
Elín S. Kristinsdóttir er skjalastjóri Hafnarfjarðarkaupstaðar.