Viðsnúningur – Tillögum um þrjár íbúðir að Suðurgötu 36 hafnað

Ekki heimilt að leysa bílastæðamál með greiðslu í bílastæðasjóð

Suðurgatan var fyrsti sýsluvegurinn í gegnum Hafnarfjörð til Suðurnesja.

Tillaga að breyttu deiliskipulagi, sem tók til lóðarinnar Suðurgötu 36, sem gerði ráð fyrir fjölgun íbúða; að á jarðhæð verði heimilað að fá samþykktar tvær íbúðir þannig að íbúðum á lóð fjölgi úr tveimur íbúðum í þrjár, var hafnað á fundi ráðsins í gær.

Skipulags- og byggingarráð hafði áður samþykkt tillöguna og bæjarstjórn auglýsti hana auk þess sem hún var grenndarkynnt aðliggjandi lóðarhöfum.

Bárust athugasemdir frá 10 húsum í nágrenninu og á fundi ráðsins 15. des. s.l. var óskað eftir greinagerð skipulagsfulltrúa vegna framkominna athugasemda auk þess sem ráðið óskaði þ. 12.1.2021 eftir áliti bæjarlögmanns um innheimtu bílastæðagjalds og lögmæti þess sbr. greinargerð skipulagsfulltrúa sem lögð var fram.

Núgildandi skipulag.

Í greinargerð skipulagsfulltrúa kemur m.a. fram að gildandi deiliskipulag geri ekki ráð fyrir fjölgun íbúða nema á lóðunum Suðurgötu 70 og Hamarsbraut 7 og 17.

Fram koma í athugasemdum talsverðar áhyggjur og sjónarmið sem varða bílastæði og umferð.

Í greinargerð skipulagsfulltrúa segir að almennt skuli bílastæði leyst með gerð nýrra bílastæða innan marka viðkomandi lóðar. Jafnframt beri umsækjanda að gera grein fyrir væntanlegri bílastæðaþörf vegna fyrirhugaðrar mannvirkjagerðar eða breytingum þeim. Kröfur til bílastæða hafi tekið breytingum í tímans rás.

Í aðalskipulagi Hafnarfjarðarkaupstaðar 2013-2025 er eftirfarandi að finna um bílastæði almennt:

„Bifreiðastæðaþörf bygginga skal almennt vera leyst innan lóða. Sett eru lágmarksákvæði varðandi fjölda bílastæða og bílastæða fyrir fatlaða. Unnt er að víkja frá þessum lágmarksákvæðum í deiliskipulagi ef sýnt er fram á að bílastæðaþörf sé minni eða unnt sé að uppfylla hana með öðrum hætti. Í skipulagi nýrra hverfa er hér miðað við 1 stæði á íbúð sem er 80 m² eða minni, en fyrir stærri íbúðir skal gera ráð fyrir 2 bílastæðum á íbúð.”

Með vísan til þess sem segir í greinagerðinni og þess vafa sem á við um bílastæðakröfur auk þeirra athugasemda sem fram hafa komið mælti skipulagsfulltrúi ekki með erindinu eins og það lá fyrir.

Greinargerð bæjarlögmanns ekki birt

Álit sem skipulags- og byggingarráð bað bæjarlögmann um 21. janúar og notað var til afgreiðslu ráðsins var ekki lagt fram í ráðinu að sögn Ólafs Inga Tómassonar formanns ráðsins og því hafi það ekki verið birt með fundargerðinni.

Ætla má að það hafi verið fordæmisgefandi fyrir svæði önnur enn miðbæjarsvæði þar sem sannarlega má leysa bílastæðamál með uppbyggingu almenningsbílastæða.

 

Telja ekki heimild til greiðslu bílastæðagjalds gegn því að gera ekki bílastæði – Fjarðarfréttir (fjardarfrettir.is)

 

 

Ummæli

Ummæli