Náðu aðeins að úthluta 14 af 53 milljónum í sérstaka íþrótta- og tómstundastyrki

Borist hafa 606 umsóknir um sérstakan íþrótta- og tómstundastyrk sem ætlaður er efnaminni fjölskyldum. Samkvæmt upplýsingum frá ríkisskattstjóra haustið 2020 voru um 1.170 börn í Hafnarfirði sem áttu rétt á styrknum. Staðan virðist vera svipuð í öðrum sveitarfélögum.

Samþykktar hafa verið 464 umsóknir fyrir 380 börn en á bið eru 63 umsóknir þar sem óskað var eftir fullnægjandi kvittunum sem ekki hefur verið brugðist við.

Búið er að greiða út 14.419.294 kr. í sérstaka íþrótta- og tómstundastyrki frá því afgreiðsla styrkjanna hófst haustið 2020 en Hafnarfjarðarkaupstaður fékk greitt 52.650.000 kr. frá félagsmálaráðuneytinu til að ráðstafa í styrkina.

Einfalda á umsóknarferlið

Afgreiðsla styrkja hófst í lok árs 2020 og eins og sjá má hafa ekki margir foreldrar þeirra barna sem áttu rétt á styrknum sótt um.

Upphaflega var styrkurinn aðeins fyrir skólaárið 2020-2021 en í vor var reglunum breytt og bætt við sumrinu 2021 og umsóknarfresturinn framlengdur til 31. júlí 2021.

Í samantekt Ernu Aradóttur verkefnastjóra sérstaks íþrótta- og tómstundastyrks á fjölskyldu- og barnamálasviði Hafnarfjarðar virðist umsóknarferlið hafa verið of flókið sem líklega er ástæðan fyrir svo fáum umsóknum. Foreldrar þurftu að fara inn á island.is, veita þar samþykki fyrir öflun upplýsinga um launatekjur, fylgja slóð inn á umsóknina sjálfa og fylla hana út ásamt því að tengja við fullnægjandi kvittun. Foreldrið þurfti því að leggja út fyrir íþróttinni eða tómstundinni og fá svo styrkinn eftir á.

Til þess að bregðast við þessu hefur félagsmálaráðuneytið ákveðið að breyta umsóknarferlinu sem mun byrja núna í haust og verður að minnsta kosti til áramóta. Umsóknarferlið verður þá að mestu leyti sjálfvirkt og á foreldri að geta hakað við að nýta sérstakan íþrótta- og tómstundastyrk þegar það skráir barn í íþrótt eða tómstund og myndast þá inneign sem lækkar fjárhæð námskeiðsins og þar með útlagðan kostnað foreldris.

Fjármagnið sem Hafnarfjarðarkaupstaður hefur þegar fengið greitt til að ráðstafa í sérstaka íþrótta- og tómstundastyrki verður nýtt til að byrja með en það hefur verið sett meira fjármagn í verkefnið hjá ráðuneytinu.

Ummæli

Ummæli