Opna Álfheim á föstudaginn með dýrindis kræsingum

Húsið er tilbúið í björtum litum.

„Hugmyndin að Álfheimi kom til mín vegna þess að á unglingsárum náði ég mikilli hæfni í skreytingum og matseld; að búa til ýmis góðgæti og sælgæti með heimatilbúnum uppskriftum,“ segir Silbene Dias sem rekið hefur veitingahúsið A. Hansen með góðum árangri frá 2017.

Á hádegi á föstudag verður Álfheimi lokið upp en hann verður í litlu sérsmíðuðu húsi við Vesturgötuna, við hliðina á A. Hansen.

Það má gera töfra á ýmsan máta.

„Mig langar að færa Hafnfirðingum töfra,“ segir Silbene með ljóma í andlitinu og segir blaðamanni Fjarðarfrétta frá hugmyndum um gómsætt sætabrauð, heitt súkkulaði og veisluþjónustu og það er ekki frá því að maður sjái stjörnur glampa.

„Í huggulega litla húsinu okkar munun við njóta með hófsemi og hamingju í huggulega litla húsinu okkar góðgætis frá Álfheimi, heimili álfanna á þessum flóknu tímum sem heimurinn tekst nú á við,“ segir Silbene sem segir hugmyndina ekki nýja.

Silbene Dias, sem er frá Brasilíu, flutti til Íslands árið 2004. Fjölskylda hennar er í veitingageiranum í Brasilíu og segir Silbene alla uppskriftirnar koma frá fjölskyldunni. Hana hafi lengið langað að sinna sætabrauðinu meira og Covid tímabilið hafi gefið henni tækifæri til að útfæra hugmyndir sínar. Reksturinn á Álfheimi verður fjölskyldurekstur því Marcia Andreia Dias, systir Silbene verður með henni í rekstrinum. Þá hefur önnur systir hennar, Cleide Dias, unnið með henni, m.a. við hönnun á álfahúsinu.

Systurnar Marcia Andreia, Silbene og Cleide Dias.

Sjálf hefur Silbene unnið á mörgum glæsilegum veitingastöðum, m.a. verið yfirkokkur á veitingastaðnum 1919 á Radison Blue hótelinu og einnig á Silica Hotel Bláa lónsins. Þá dvaldi hún um tíma í Frakklandi við nám í matreiðslufræðum og starfaði um tíma á fimm stjörnu hóteli í Noregi.

Gómsætir réttir og veisluþjónusta

Meðal rétta á matseðlinum eru churros, vöfflur með ís og rjóma, íslenskar pönnukökur, grillaðir sykurpúðar og súkkulaðikaka með ís og rjóma. Þá er hægt að fá heitt súkkulaði með nammi, kaffi og kalda þeytinga. Þá er hægt að fá nokkur partýtilboð til að taka með.

Að auki bjóða þær systur upp á veisluþjónustu sem þær hafa góða reynslu af og segja teymið þeirra leggja sitt af mörkum til þess að hver viðburður sé einstakur og ógleymanlegur, þær bjóði upp á bakkelsi, sætindi og annað góðgæti, svo sem skreytt nammi, borð og fleira.

Og þá er að setja upp álfahúfuna en opið verður föstudag kl. 12-18 og laugardaga og sunnudaga kl. 12-18.

Álfheimur – húsinu komið fyrir.

Sjá nánar á www.alfheimur.is

Ummæli

Ummæli