Heitir þú María og viltu vera með í að endurskapa listaverk?

Heitirðu María? Býrðu í Hafnarfirði? Hefurðu áhuga á að vera með í listaverki?
Um þessar mundir vinnur Hafnarborg að uppsetningu yfirlitssýningarinnar, Lengi skal manninn reyna, þar sem sýnd verða verk eftir listamanninn Þorvald Þorsteinsson (1960-2013).

Á sýningunni stendur til að endur­skapa eitt verka listamannsins, Myndina af Maríu, sem Þorvaldur sýndi fyrst á sýningu í Listasafninu á Akureyri árið 1996. Sýningin í Hafnarborg hefst á afmælisdegi Þorvaldar, 7. nóvember nk.

Myndin af Maríu er þátttökulistaverk sem fólst í því að listamaðurinn óskaði eftir að fá myndir að láni frá þeim sem báru nafnið María og bjuggu á Akur­eyri. Myndirnar sýndi hann svo allar saman í einu rými safnsins, við milda lýsingu, sveipaðar helgiblæ. Vísaði hann þar til helgra Maríumynda og tengdi saman hversdagsleikann og heilagleikann í verki sínu.
Heitir þú María og býrðu í Hafnarfirði?

Nú leitar Hafnarborg til María, sem búsettar eru í Hafnarfirði, um að lána safninu myndir af sér til að sýna á væntanlegri yfirlitssýningu á verkum listamannsins. Myndin getur verið passamynd eða stærri ljósmynd, sjálfs­mynd tekin á síma, mynd úr fjölskyldu­albúminu, teikning eða málverk, ef slíkt er til, andlitsmynd eða heilmynd, allt eftir smekk. Þá skiptir stærð eða aldur myndarinnar ekki máli, heldur er leitast eftir því að fjölbreytni í formi og útliti verði sem mest.

Myndinni má koma til skila í afgreiðslu Hafnarborgar eða í tölvupósti á hafnarborg@hafnarfjordur.is en gæta þarf að myndinni fylgi fullt nafn og símanúmer þátttakanda. Tekið verður við myndum til 10. október. Að sýningu lokinni munu þátttakendur svo geta nálgast mynd sína í afgreiðslu safnsins.

Ummæli

Ummæli