Hafnfirðingur til 17 ára opnaði tannlæknastofu við Lækinn

Hrafnhildur Eik Skúladóttir tannlæknir

Hrafnhildur Eik Skúladóttir opnaði nýlega glæsilega tannlæknastofu á horninu á Lækjargötu og Hringbraut. Nefnir hún tannlæknastofuna Skínandi tennur.

Hrafnhildur, sem er 39 ára, svarar neitandi þegar hún er spurð hvort hún sé Hafnfirðingur en segist hafa flutt til bæjarins 2004. Um þetta skapast skemmtilegar umræður um hvenær maður geti talið sig Hafnfirðing og upplýsir blaðamaður sína skoðun að um um leið of fólk flytur til Hafnarfjarðar er það Hafnfirðingur. Umræðan um það hvenær bæjarbúar geti talið sig Gaflara hefur þarna greinileg áhrif.

Hrafnhildur Eik og Sigrún Þóra Gunnarsdóttir aðstoðarkona hennar í hlýlegri móttökunni.

Grundfirðingur

En Hrafnhildur upplýsir að hún sé fædd og uppalin í Grundarfirði. Maki hennar, Hreinn Gústavsson, forritari, er hins vegar Gaflari að hennar sögn og eiga þau þrjú börn.

Tannlæknastofuna hefur hún innréttað á hlýlegan hátt og rúmt er um starfsemina en stofuna opnaði hún í mars sl. Hrafnhildur útskrifaðist frá Tannlæknadeild Háskóla Íslands árið 2011 og hóf störf á barnatannlæknastofu. Hún hefur stundað almennar tannlækningar frá útskrift en hennar stærsti kúnnahópur hefur verið börn.

Tannlæknastofan er björt og rúmgóð.

Segist hún að sjálfsögðu taka við öllum og hafa andrúmsloftið þægilegt og kósý. Stofan er vel búin tækjum og Hrafnhildur hefur mikla reynslu af notkun glaðlofts sem er mikið notað í tannlækningum og hefur væg róandi áhrif. Það getur því hjálpað mikið í allri meðferð hjá þeim sem þess þurfa. Mikið er notast við glaðloft hjá börnum þar sem það gerir alla upplifun af tannlækningum auðveldari og getur því komið í veg fyrir að hræðsla við tannlækningar þróist.

Börn eru sérstaklega velkomin.

Hrafnhildur telur að tennur barna sé í nokkuð góðu ástandi almennt og segir hún samning Sjúkratrygginga Íslands og Tannlæknafélags Íslands frá 2013 skipta miklu máli en hann hefur tekið til allra barna frá ársbyrjun 2018 en eftir það þarf aðeins að greiða árlegt komugjald. Samningurinn rann út 31. janúar 2020 en hann hefur verið framlengdur til ágústloka nk.

Þrívíddarskanni er eitt af nýju tækjunum á tannlæknastofu í dag.

„Ástandið virðist vera betra en þegar gerð var rannsókn árið 2005,“ segir Hrafnhildur en telur að gosdrykkir og orkudrykkir hafi mjög vond áhrif á tennurnar og glerungseyðing sé oft mikil og bendir á að glerungurinn myndast ekki aftur.

Góðar móttökur

„Viðbrögðin hafa verið ótrúlega góð frá opnun,“ segir Hrafnhildur sem segir að Hafnfirðingar hafi tekið vel á móti sér og komi þeir til viðbótar við þá sem hún hafi þjónað áður.

Ummæli

Ummæli