Hafnarfjarðarbær hefur keypt auglýsingar og áróðursgreinar fyrir 7,2 milljónir kr. í Hafnfirðingi á þessu ári

Hafnarfjarðarbær hefur mismunað hafnfirskum fjölmiðlum illilega

Bæjarstjóri hefur í raun gert Hafnfirðing að sínu málgagni með háum greiðslum.

Hafnarfjarðarbær hefur á þessu ári þegar keypt auglýsingar og áróðursgreinar í blaðinu Hafnfirðingi,  sem Björt útgáfa gefur út, fyrir vel yfir sjö milljónir krónur. Er það 45% hærri upphæð en Hafnarfjörður greiddi bæði fyrir auglýsingar í bæði Fjarðarfréttum og Hafnfirðingi (áður Fjarðarpóstinum) á síðasta ári.

Árið 2019 keypti Hafnarfjörður auglýsingar og áróðursgreinar fyrir samtals 17.414.564 kr. en þá eru aðeins talið með það sem fer í gegnum hendur samskiptastjóra en utan við þetta geta verið auglýsingar einstakra stofnana og fl.

Mest var keypt af Torgi ehf., útgefandi fréttablaðsins, 6,7 milljónir kr. og er það bæði fyrir auglýsingar og keypt áróðursefni.

Næst mest keypti Hafnarfjarðarbær auglýsingar hjá Björt útgáfu fyrir 3.043.939 kr. sem gerir að meðaltali 104.963 kr. á hvert útgefið blað af Hafnfirðingi (áður Fjarðarpóstinum). Sama ár keypti Hafnarfjarðarbær auglýsingar af Hönnunarhúsinu ehf., sem gefur út Fjarðarfréttir, fyrir 1,894.238 kr. sem gerir að meðaltali 42.094 kr. á hvert útgefið blað en Fjarðarfréttir var með vikulega útgáfu. Hafnarfjarðarbær keypti því fyrir 145% hærri upphæð af Björt útgáfu á hvert útgefið blað en bærinn keypti í Fjarðarfréttum.

Greiddi 61% meira til Hafnfirðings sem gaf út mun færri blöð

Þarna, árið 2019, sést vel hversu Hafnarfjarðarbær mismunar þessum fjölmiðlum og greinilegt að það er ekki liðið að birtar séu gagnrýnar greinar um málefni bæjarins og þá sérstaklega ekki um Sjálfstæðisflokk og Framsóknarflokk sem mynda meirihluta í bæjarstjórn. Í heild greiddi Hafnarfjarðarbær 61% hærri upphæð fyrir auglýsingar í Hafnfirðingi en í Fjarðarfréttum þó Hafnfirðingur kæmi aðeins út 29 sinnum á árinu á meðan Fjarðarfréttir komu út 45 sinnum á árinu 2019.

Auglýsingakaup 2019 – Birgjar Upphæð
Torg ehf. – Fréttablaðið o.fl. 6.715.772
Björt útgáfa ehf. – Hafnfirðingur 3.043.939
Alfreð ehf. – starfsauglýsingar 2.067.208
Hönnunarhúsið ehf. – Fjarðarfréttir 1.894.238
Facebook 824.376
Sýn hf. 581.441
Xprent-hönnun og merkingar ehf 414.960
Stjórnartíðindi 341.753
Sahara ehf. – auglýsingastofa 184.884
Sjómannadagsráð 136.730
Stafræna Prentsmiðjan ehf 135.904
Sýslumaðurinn á Suðurlandi 133.756
ABS media ehf. 127.052
Bæjarbíó slf. 111.538
MD Reykjavík ehf. 93.310
Fröken ehf. Reykjvik Grapevine 92.256
Sjálfstæðisfélag Hafnarfjarðar 80.000
Síminn hf. 74.276
Vikudagskráin ehf 55.800
Ríkisútvarpið ohf. 55.800
Skógræktarfélag Íslands 44.200
Árvakur hf. 36.467
ÁMI ehf. – auglýsingastofa 35.650
Kvenréttindafélag Íslands 28.000
Íslenska auglýsingastofan ehf. 26.412
Hinsegin dagar í Reykjavík 25.000
Umhverfis- og auðlindaráðuneyti 20.622
Ragnar Freyr Pálsson – auglýsingastofa 19.220
Íþróttasamband fatlaðra 9.000
Fræðsla og forvarnir 5.000

Hafnarfjarðarbær gaf sjálfur út fyrir jólin 2019 sérstakt jólablað sem kostaði skattgreiðendur í Hafnarfirði 3,5 milljónir kr. og greiddi Hafnarfjarðarbær þá Bjartri útgáfu 300 þús. kr. fyrir ritstjórn þess. Það blað sem átti að vera markaðsblað fyrir Hafnarfjörð var gefið út án samstarfs við Markaðsstofu Hafnarfjarðar og var engra tilboða leitað við útgáfu þess. Þessi útgáfa var dropinn sem fyllti mælinn hjá Hönnunarhúsinu sem þá tók ákvörðun um að hætta útgáfu prentaðs blaðs þá um áramótin.

Hefur aukið verulega kaup á auglýsingum og áróðursgreinum í Hafnfirðingi á þessu ári

Árið 2020 er all sérstakt í ljósi þess að mikill samdráttur hefur verið á mörgum sviðum. Þegar hefur Hafnarfjarðarbær keypt auglýsingar og áróðursgreinar fyrir hærri upphæð en allt árið 2019 og er upphæðin þegar komin í 18,2 milljónir kr.

Það vekur sérstaka athygli að, á meðan Hafnarfjarðarbær hefur ekki keypt eina einustu auglýsingu á fréttavefnum Fjarðarfréttir.is, þá hefur bærinn keypt auglýsingar og áróðursgreinar fyrir tæpar 7,2 milljónir kr. í Hafnfirðingi. Ef skoðaðar eru auglýsingar frá Hafnarfjarðarbæ í þeim blöðum sem Hafnfirðingur hefur gefið út á árinu þá má ætla að keypt áróðursefni hafi kostað hafnfirska skattgreiðendur vel á fimmtu milljón kr. En þar sem aðgreining á kaupum Hafnarfjarðarbæjar á auglýsingum eru af svo skornum skammti og t.d. ekki aðgreint hvað keypt er af auglýsingum og hvað sé keypt af áróðursefni, er erfitt að sjá fyrir hvað Hafnarfjarðarkaupstaður er að greiða fyrir.

Á þessu ári hefur Hafnarfjarðarbær keypt eftirfarandi af Hafnfirðingi (Björt útgáfa):

42 auglýsingar í 19 blöðum og er hver auglýsing að meðaltali 0,37 síða að stærð og ef verð hafa ekki mikið hækkað frá síðasta ári má ætla að þessar auglýsingar hafi kostað 2-2,5 milljónir króna.

32 heilsíðuáróðursgreinar  í 19 blöðum með allt að þremur slíkum í einu blaði. Ef Hafnarfjarðarbær hefur ekki keypt neitt annað af Bjartri útgáfu sem flokkast undir auglýsingar í bókhaldi bæjarins, þá hafa þessar keyptu áróðursgreinar kostað skattgreiðendur 4,7-5,2 milljónir kr.

Áróðursgreinarnar eru merktar með litlu merki „samstarf” en slík merking hefur ekki hlotið viðurkenningu hjá Fjölmiðlanefnd sem lögleg merking á keyptum skrifum.

Greinilegt er að það er ekki liðið í Hafnarfirði að fjölmiðlar séu gagnrýnir og þeim sem sýna hollustu er hampað.

Auglýsingakaup 2020 jan-okt – Birgjar Upphæð
Björt útgáfa ehf. 7.171.315
Torg ehf. – Fréttablaðið og fl. 6.371.511
Alfreð ehf. – starfsauglýsingar 989.395
Árvakur hf. – Morgunblaðið 788.060
N4 ehf. 762.476
Stjórnartíðindi 366.618
Ás fasteignasala ehf. 300.000
Facebook 298.290
Eldborg, kiwanisklúbbur 250.000
Sahara ehf. – auglýsingastofa 240.188
Gríptu daginn slf. – auglýsingastofa 173.750
RÚV Sala ehf. 116.517
Sýslumaðurinn á Suðurlandi 106.560
Myllusetur ehf. – Fiskifréttir og fl. 80.600
Vikudagskráin ehf 49.600
Skógræktarfélag Íslands 37.200
Sjómannadagsráð 28.226
Hrafnista Laugarási 20.161
Kópavogspósturinn ehf 18.600
Umhverfis- og auðlindaráðuneyti 16.824
Heilsumiðstöð SÍBS ehf. 12.400
Björgunarsveit Hafnarfjarðar 10.000
Alls 18.208.291

Með eigin fréttastofu

Með tilkomu samskiptastjóra eftir að upplýsingafulltrúa hafði í raun verið vikið frá starfi hefur upplýsingaflæði frá bæjarfélaginu breyst mikið. Í stað hefðbundinna fréttatilkynninga og ábendinga um efni hafa núverandi valdhafar komið sér upp eigin fréttastofu sem matreiðir tilbúnar fréttir, tekur eigin viðtöl og myndir og sendir út. Því hafa fjölmiðlar minni möguleika á að mæta á staðinn og upplifa sjálfir og nýta eigið myndefni.

Greinilegt er að það á helst að birtast ákveðin mynd af Hafnarfirði sem ekki er endilega í takt við raunveruleikann eða að minnsta kosti segir aðeins hálfan sannleikann.

Ritstjóri Fjarðarfrétta hefur ritstýrt bæjarblaði í Hafnarfirði síðan 2001 og hefur kynnst ýmsu en svona aðstæður hafa aldrei verið í Hafnarfirði.

Ummæli

Ummæli

Skilja eftir athugarsemd

Please enter your comment!
Please enter your name here