Framsóknarflokkurinn jók fylgi sitt um 83,5%

Miðflokkurinn tapar yfir helming fylgis síns og Samfylkingin tapar þriðjungi af sínu

Hafnfirsku þingmennirnir Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, Ágúst Bjarni Garðarsson og Gísli Rafn Ólafsson.

Kosningar til Alþingis voru sl. laugardag og var 81,1% kjörsókn í Suðvestur­kjör­dæmi, heldur minni en í síðustu alþing­is­kosn­ingum og enn minni var kjörsóknin í Hafnarfirði, 78,8% sem er mun lægra en í síðustu kosningum þegar hún var 82,4% og lægri en lægsta landsmeðaltal síðan um miðja síðustu öld.

Kjörsókn á landinu öllu var 80,1% sem er næst lægsta kjörsókn í a.m.k. 75 ár.

Á kjörskrá í Hafnarfirði voru 20.453 en voru 20.834 árið 2017.

Niðurstöður alþingiskosninga 2021

Fimm nýir þingmenn

Fimm þingmenn koma nýir inn á þing fyrir Suðvesturkjördæmi. Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfisráðherra er nú í fyrsta sinn kjörinn á þing, Þórunn Sveinbjarnardóttir kemur aftur inn á þing eftir nokkurt hlé, Ágúst Bjarni Garðarsson kemur nýr inn á þing og sömuleiðis Sigmar Guðmundsson og Gísli Rafn Ólafsson.

Tveir þingmenn kjördæmisins búa ekki í kjördæminu, þeir Guðmundur Ingi Guðbrandsson og Sigmar Guðmundsson. Þrír þingmenn búa í Hafnarfirði, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, Ágúst Bjarni Garðarsson og Gísli Rafn Ólafsson.

Þingmenn Suðvesturkjördæmis 2021

Sjálfstæðisflokkurinn tapar fylgi en heldur þingsætum sínum

Sjálfstæðisflokkurinn er áfram lang stærsti flokkurinn í kjördæminu þó hann tapi fylgi, aðrar kosningarnar í röð en heldur sínum 4 þingsætum.

Framsóknarflokkurinn eykur fylgi sitt langmest og bætir við sig þingmanni

Framsóknarflokkurinn vinnur lang­mest á, eykur fylgi sitt um 83,5% og bætir við sig manni, Ágústi Bjarna Garðarssyni, bæjarfulltrúa í Hafnarfirði.

Fylgi Viðreisnar eykst um 20%

Viðreisn eykur fylgi sitt um fimmtung en bætir ekki við sig þingsæti.

Fylgi Fólks fólksins eykst um 16,9%

Flokkur fólksins eykur fylgi sitt um 16,9% og fær nú kjördæma­kjör­inn þingmann.

Óbreytt fylgi Pírata en fá viðbótarþingmann

Píratar halda sínu fylgi en bæta við sig jöfn­unar­þingmanni, en Hafnfirðingurinn Gísli Rafn Ólafs­son kom inn sem jöfnunar­þing­mað­ur eftir endur­taln­ingu í Norð­vestur­kjör­dæmi.
Miðflokkurinn geldur afhroð og tapar rúmlega helmingi af fylgi sínu og missir sinn þingmann.

Samfylkingin tapar 33,6% en heldur þingsæti sínu

Samfylkingin tapar þriðjungi af fylgi sínu frá síðustu kosningum en þá hafði flokkurinn aukið fylgi sitt um 155% frá kosningunum 2016 þar sem flokkurinn galt afhroð og fékk aðeins 4,8%. Samfylk­ingin heldur þó sínum þingmanni þar sem gamall þingmaður kemur inn á ný.
VG tapar 11% af fylgi sínu og tapar þingmanni.

Tveir þingmenn í kjördæminu búa ekki í kjördæminu, þeir Guðmundur Ingi Guð­brands­son og Sigmar Guð­mundsson.

Ellefu þingmenn eru kjördæmakjörnir en tveir eru í jöfnunarsætum, þeir Sigmar Guðmundsson og Gísli Rafn Ólafsson.

Suðvesturkjördæmi fær fleiri þingsæti

Misvægi milli SV og NV-kjördæmis er komið yfir leyfileg mörk og fær Suðvestur­kjördæmi því 14 þingsæti í næstu kosningum.

Ummæli

Ummæli

Skilja eftir athugarsemd

Please enter your comment!
Please enter your name here