Enn hægt að hlaða rafbíla í Hafnarfirði á kostnað skattgreiðenda

Hleðslustöðin við Fjörð

Þann 12. febrúar samþykkti umhverfis- og framkvæmdaráð að leggja á gjald vegna notkunar rafhleðslustöðvar við Fjörð eftir tillögu frá umhverfis- og skipulagssviði. Hafði sviðinu verið gert að gera tillögu að hóflegri kostnaðarþátttöku notenda en Hafnarfjarðarbær rekur rafhleðslustöðvar á Norðurhellu, við Ásvallalaug og við Fjörð. Umhverfis- og skipulagssvið er staðsett við Norðurhellu þar sem ein rafhleðslustöðvanna er en ekki var gerð tillaga um gjaldtöku þar frekar en við Suðurbæjarlaug.

Bæjarráð hefur enn ekki fjallað um tillögurnar

Vísaði ráðið tillögu að gjaldtöku til samþykktar í bæjarráði sem hefur enn ekki fjallað um það og því er ennþá frítt fyrir eigendur rafbíla að hlaða bíla sína á þessum stöðum en það eru skattgreiðendur sem borga brúsann.

Í svari við fyrirspurn Fjarðarfrétta um það hvers vegna bæjarráð væri ekki búið að fjalla um málið, sagði Ágúst Bjarni Garðarsson, formaður bæjarráðs: „Við munum taka það mál fljótlega“.

Engin skýring hefur verið gefin á því af hverju það eigi að vera frítt að nota hinar hleðslustöðvarnar.

  • Lagt var til að verð á hraðhleðslu (DC 50 kW) verði 20 kr. fyrir kílówattstundina og 19 kr. fyrir mínútuna eftir fyrstu 15 mínúturnar. Gerir það 5 kr. afslátt ef tillagan verður samþykkt.
  • lagt var til að verð á hæghleðslu (AC 22 kW) verði 20 kr. fyrir kílówattstundina og 2 kr. fyrir mínútuna eftir fyrstu 15 mínúturnar. Gerir það 50 aura afslátt ef tillagan verður samþykkt.

Hleðslustöðvar í Hafnarfirði:

  • Þjónustumiðstöð Hafnarfjarðar, Norðurhellu 2 – Ísorka, hæghleðsla
  • Ásvallalaug, Ásvöllum 2 – Ísorka, hæghleðsla
  • Fjarðargata við Fjörð – Ísorka, hæghleðsla og hraðhleðsla
  • Krónan, Fjarðarhrauni 13 – Ísorka, hæghleðsla (frítt)
  • Flugvellir 1 – Orka náttúrunnar, hæghleðsla
  • Bílakjallarinn Firði (sem er í eigu Hafnarfjarðarbæjar) – aðeins 16 A tenglar.

Fleiri hleðslustöðvar eru við einstök fyrirtæki en óvíst um aðgang almennings eða viðskiptavina að þeim.