Föstudagur, júlí 4, 2025
target="_blank"
HeimFréttirBörn sunnan megin við læk: Mismunun í íþróttaaðstöðu

Börn sunnan megin við læk: Mismunun í íþróttaaðstöðu

Halldór Jón Garðarsson skrifar

Knattspyrna er vinsælasta íþróttagrein veraldar og einnig á Íslandi en því miður er verið mismuna iðkendum í Hafnarfirði hvað búsetu varð­ar þar sem þeir búa við afar skerta og dapra æfinga­astöðu yfir vetrarmánuðina, þ.e. frá september – apríl.

Jafnframt er samkeppnis­staða knattspyrnudeildar Hauka skert þar sem margir af yngstu iðkendum í 7. og 8. flokki sem eru að stíga sín fyrstu skref í íþróttinni og foreldrar þeirra, sem búa til dæmis á Völlunum, Holtinu, Áslandi og í Hvömmum, kjósa fremur félag sem er með knatthús. Þannig er verið að keyra með börn talsvert lengri leið þvert yfir bæinn á æfingar í stað þess að börn í fyrrgreindum hverfum geti æft með sínu hverfisfélagi.

Nú hefur Fimleikafélag Hafn­­arfjarðar óskað eftir bygg­ingu á þriðja knatthúsinu við Kaplakrika á sama tíma og iðkendur í Haukum fá ekkert skjól fyrir veðri og vindum í 8 mánuði. Það er ósann­gjarnt og næsta knatt­spyrnuhús í Hafnarfirði hlýtur að vera reist á Ásvöllum. Einhverjir kunna þá að benda á að nú sé verið að byggja parkethús á Ásvöllum en á móti má benda á nýtingu á parketi í Ásvöllum sem stendur við nýjasta hverfi bæjarins gagnvart Kapla­krika sem og nýlegt frjálsíþróttahús sem var reyndar mikill fengur fyrir alla Hafnfirðinga. Þá má einnig nefna mikinn mun á stúkum við knatt­spyrnuvelli fyrir áhorfendur.

Knattspyrnudeild Hauka leggur mikla áherslu á að ráða til starfa vel menntaða þjálfara og hlúa vel að sínum iðkendum. Deildin leggur áherslu á að gefa uppöldum leikmönnum tækifæri í meistaraflokkum félagsins. Það er ekki sanngjarnt fyrir börn og unglinga í Haukum að þeim sé mismunað þegar kemur að aðstöðu eins og raun ber vitni.

Höfundur er faðir þriggja dætra sem æfa knattspyrnu með Haukum og situr í stjórn knattspyrnudeildar félagsins.

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2