Blásarafornám í stað hefðbundinnar blokkflautukennslu

Margir eiga minningar úr flautunámi sem börn.

Breytingar sem gerðar voru á seinna ári forskólans í Tónlistarskóla Hafnarfjarðar haustið 2019 hafa orðið til þess að aðsókn í blásaradeild skólans að forskólanámi loknu hefur aukist til muna. Forskólinn breyttist í blásarafornám þar sem nemendur læra á blásturshljóðfæri í litlum hópum í stað hefðbundinnar blokkflautukennslu bæði í húsnæði skóla og í auknu mæli í grunnskólum bæjarins. Yngri lúðrasveitin, sem var 16 barna sveit, er nú orðin 35 barna sveit.

Lúðrasveit yngri nemenda.

Tónlistarskóli Hafnarfjarðar fagnaði 70 ára stofnafmæli í september 2020 og verður afmæli fagnað með fjölbreyttum hætti um leið og umhverfi og aðstæður leyfa.

Vinsældir tréblásturs- og málmblásturshljóðfæra aukast

Nemendur hefja forskólanámið við 7 ára aldur eða samtíma öðrum bekk í grunnskóla. Forskólinn hefur þann tilgang að búa börnin undir hljóðfæranám og er áhersla í upphafi lögð á söng, hreyfingu og hlustun auk þess sem þætti sköpunar er sinnt með allskonar verkefnum þar sem nemendur búa sjálfir til tónlist.

Til fjölda ára hefur áhersla verið lögð á kennslu á blokkflautu en sú breyting var gerð haustið 2019 að breyta fornáminu í blásarafornám. Þessi breyting hefur orðið til þess að mun fleiri nemendur velja sér ólík blásturshljóðfæri sem sitt hljóðfæri í kjölfar hljóðfærakynningar sem á sér stað á öðru ári í forskólanum.

Ungur Hafnfirðingur fær að prófa básúu á opnum degi í Tónlistarskólanum.

Gítar, píanó og trommur halda áfram að tróna á toppnum sem fyrsta val en nú eru tréblásturshljóðfæri eins og þverflauta, klarinett, saxófónn og óbó og málmblásturshljóðfæri eins og kornett, trompet, horn, baritónhorn, básúna og túba farin að sækja í sig veðrið.

Hægt að hefja nám á öll þessi hljóðfæri strax eftir nám í forskóla og frá upphafi náms og um leið og ákveðinni grunnfærni hefur verið náð á sér stað samspil í lúðrasveitum og öðrum samleikshópum.

Ummæli

Ummæli