Frjálsíþróttakonan Bergrún Ósk Aðalsteinsdóttir úr FH var í dag kjörin íþróttakona ársins hjá Íþróttasambandi fatlaðra, þriðja árið í röð.
Skíðamaðurinn Hilmar Snær Örvarsson úr Víkingi var kjörinn íþróttakarl ársins hjá ÍF.
Bergrún Ósk setti Íslandsmet í langstökki í sumar þegar hún stökk 4,30 metra og bætti þar með Íslandsmet Matthildar Ylfu Þorsteinsdóttur í flokknum T37. Bergrún er 20 ára og keppir í flokki TF37, flokki hreyfihamlaðra.
Árangri ársins 2020 náði Bergrún sem félagsmaður hjá ÍR en nýverið skipti hún yfir til FH og munu þau félagsskipti taka fullt gildi um áramót.