Ávarp fjallkonunnar í Hafnarfirði

Bergrún Íris Sævarsdóttir, fjallkona 2021

Fjallkonan í Hafnarfirði var í ár Bergrún Íris Sævarsdóttir rithöfundur.

Flutti hún ávarp fjallkonunnar í Hellisgerði við setningu 17. júní hátíðarhaldanna en ávarpið samdi hún sjálf.

Kólnar kvika,
bráðnar ís.
breytist allt á jörðu.
En hvert þitt orð
og æviverk,
er geymt sem grjót í vörðu.

Lækur finnur nýja leið,
foss sér farveg ryður.
Flytja burt fuglar,
en fljúg’ aftur heim.
Lifnar við land
eftir skriður.

En seint gróa sárin
á brotinni sál,
og djúpt rista daganna sprungur,
því landslag hvers lífs
er hæðótt og bratt
og farangur okkar er þungur.

Úr hrjóstrugu hrauni
stráin sér stinga,
Ætíð vex gras upp að nýju
ef það grær í skjóli
úr votri mold
og lífinu mætt er af hlýju.

Byrjum því aftur
sem blóm að vori,
í garði sem sólin til nær.
og biðjum þá forláts,
sem illa við meiddum,
með því sem við gerðum í gær.

Kólnar kvika,
hverfur ís.
Að landi og lífi við gætum
ef við vöndum vor orð
og ævinnar verk,
af auðmýkt fyrir við bætum.

Hjónin Andri Ómarsson, verkefnastjóri hjá Hafnarfjarðarbæ og Bergrún Íris Sævarsdóttir, rithöfundur.

 

Ummæli

Ummæli

Skilja eftir athugarsemd

Please enter your comment!
Please enter your name here