Stratagem er nýtt hafnfirskt ráðgjafafyrirtæki á sterkum grunni

Ása Karin Hólm Bjarnadóttir, Þórður Sverrisson og Sigurjón Þórðarson eigendur Stratagem.

Stratagem er nýtt hafnfirskt ráðgjafafyrirtæki með áherslu á ráðgjöf á sviði stefnumótunar, skipulags og stjórnunar, og mannauðsmála af ýmsu tagi. „Nafnið Stratagem þýðir herkænska í baráttu eða skapandi leiðir til að ná markmiðum og árangri,“ segir Hafnfirðingurinn Þórður Sverrisson, framkvæmdastjóri Stratagem.

Reynslumiklir Hafnfirðingar standa að félaginu en eigendur eru Ása Karin Hólm Bjarnadóttir, Sigurjón Þórðarson auk Þórðar. Allt fólk sem hefur áratuga reynslu sem ráðgjafar og höfðu starfað saman um árabil hjá Capacent.

„Stratagem byggir fyrst og síðast á áralangri reynslu sem hefur styrkt innsýn inn í aðstæður og viðfangsefni íslensks atvinnulífs og ráðgjöf Stratagem er lausnamiðuð og praktísk,“ segir Þórður.

Þórður, sem er með meistarapróf frá Viðskiptaháskólanum í Kaupmannahöfn, hefur starfað við ráðgjöf á sviði stefnumótunar, skipulags og stjórnunar, markaðsmála og þjónustu í 25 ár. Hefur auk þess verið aðjúnkt í Háskóla Íslands um árabil. Fyrir fáum árum gaf Þórður út bókina Forskot, sem er fyrsta bókin á íslensku sem tekur á heildstæðan hátt á lykilviðfangsefnum í stjórnun fyrirtækja þ.e. stefnumótun og framtíðarsýn, skipulagi og stjórnun og margvíslegum viðfangsefnum í markaðsstarfi.

Ása Karin er með meistarapróf frá Odense Universitet og hefur veitt fjölbreyttum hópi viðskiptavina ráðgjöf á sviði stefnumótunar, skipulags- og mannauðsmála. Í gegnum ráðgjafaferilinn hefur hún komið að ýmis konar breytingum hjá fyrirtækjum og stofnunum, ekki síst þeim sem snúið hafa að stjórnendaþjálfun og öðrum mannauðsmálum.  Ása Karin er vottaður markþjálfi og hefur komið töluvert að þjálfun og kennslu.

Sigurjón er MBA frá HR, MA dipl í jákvæðri sálfræði frá EÍ og hefur unnið sem ráðgjafi frá 2005 á sviði liðsheildar, stjórnunar, stefnumótunar og umbóta. Sigurjón hefur unnið með fjölda starfsfólks og stjórnenda við að gera starfsumhverfi og vinnustaði þeirra betri og undanfarið unnið að greiningu um velsæld fyrirtækja og breytingum í kjölfar þess. Sigurjón er framhaldsskólakennari ásamt því að vera matreiðslumeistari með meira 20 ár reynslu í veitinga og ferðaþjónustu.

„Reynsla okkar og praktísk nálgun við lausn viðfangsefna, er að okkar mati mikilvæg, ekki síst á erfiðum tímum í atvinnulífinu í dag. Okkar styrkur liggur ekki síst í að hjálpa stjórnendum við að fókusera á það sem skiptir mestu máli í dag. Skerpa á stefnu og framtíðarsýn, skerpa á skipulagi og stjórnun, og efla liðsheild og öfluga menningu fyrirtækja“, segir Þórður, framkvæmdastjóri Stratagem.

Stratagem er með skrifstofu að Reykjavíkurvegi 60.

Ummæli

Ummæli