fbpx
Fimmtudagur, desember 12, 2024
target="_blank"
HeimFréttirAðgerðir til að hindra langtímageymslu ökutækja á bæjarlandi

Aðgerðir til að hindra langtímageymslu ökutækja á bæjarlandi

Bæjarbúar hafa undanfarið vakið athygli á því að stórir bílar og jafnvel númerslausir séu geymdir m.a. við kirkjugarðinn og kvartað yfir því að mikil sjónmengun sé af því.

Viðmælandi Fjarðarfrétta segist hafa sent ábendingu og fyrirspurn á íbúagátt bæjarins en ekki fengið viðbrögð.

En það er víðar sem alls kyns farartækjum er lagt á bæjarlandi eins og við Tjarnarvelli sem blasir við öllum sem í gegnum bæinn aka.

Ljósmynd: Aðsend

Umhverfis- og framkvæmdaráð tók málið fyrir á fundi sínum í gær og ræddi lagningu ökutækja á bæjarlandi á Strandgötu 86, við Tjarnarvelli og við kirkjugarðinn við Hvammabraut.

Strandgata 86 er auð lóð í eigu bæjarins, á móts við lóð Siglingaklúbbsins Þyts, en á lóðinni hefur staðið grafa í mörg ár og hefur lóðin fyllst af bílum, sem lagt er þar til langs tíma.

Ráðið samþykkti að lokað verði á möguleika atvinnutækja og dráttarkerra/dráttarvagna að leggja við kirkjugarðinn við Hvammabraut. Þetta verði gert með því að:

  • Setja merki „bannað að leggja ökutækjum“ á umrætt svæði.
  • Loka af svæðið með stóru grjóti eða sambærilegu.
  • Breyta deiliskipulagi kirkjugarðsins þar sem setning sem heimilar stórum bifreiðum að leggja á afmarkað svæði verði tekin út.

Samþykkti ráðið að farið yrði strax í áðurgreindar framkvæmdir.

Jafnframt samþykkir ráðið að í næstu fjárhagsáætlun verði framkvæmd deiliskipulagsins framfylgt er varðar gróður á svæði milli Hvammabrautar og kirkjugarðs.

Tjarnarvellir og Strandgata 86

Númerslausar kerrur, vagnar og bíla má sjá á opnum bílastæðum á Tjrarnarvöllum, gegn öllum reglum.

Umhverfis- og framkvæmdaráð samþykkti einnig að sett verði skilti við Tjarnavelli og Strandgötu 86 þar sem bílastæði verði merkt sem skammtímastæði að hámarki 3 klst.

Hvort stefnt sé að því að fylgja reglunum eftir með aðgerðum, var ekkert sagt um en m.a. í miðbænum hafa verið sett skilti með tímatakmörkunum en engum er gerð refsing þó viðkomandi reglur séu brotnar.

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2