Maríana Ósk, Þorgrímur og Andrés Þór á Síðdegistónum í Hafnarborg

Andrés Þór, Marína Ósk og Þorgrímur Jónsson

Söngkonan Marína Ósk Þórólfsdóttir ásamt þeim Þorgrími Jónssyni, kontrabassaleikara og Andrési Þór Gunnlaugssyni, gítarleikara verða í sviðsljósinu á  næstu tónleikum tóleikaraðarinnar Síðdegistóna í Hafnarborg á föstudaginn kl. 18.

Á tónleikunum munu þau heiðra söngvarann og trompetleikarann Chet Baker og leika ýmis lög tengd honum.

Marína Ósk, söngkona og lagahöfundur, hefur stimplað sig rækilega inn í íslensku djasssenuna síðustu árin og komið fram á öllum helstu djasstónleikastöðum landsins, m.a. á Jazzhátíð Reykjavíkur 2021, 2020 og 2018. Hún lauk meistaragráðu í djasssöng frá Konunglega tónlistarháskólanum í Stokkhólmi vorið 2021 og sneri meistararitgerð hennar að því að kafa djúpt í listrænt eðli trompetleikarans og söngvarans Chet Baker.

Þorgrímur Jónsson hefur starfað sem tónlistarmaður í tæp tuttugu ár, þar sem hann hefur tekið þátt í afar fjölbreytilegum verkefnum, starfað með flestu af fremsta tónlistarfólki landsins, leikið inn á ríflega þrjátíu hljómplötur, leikið með Stórsveit Reykjavíkur, spilað í leikhúsum og komið fram í útvarpi og sjónvarpi, ásamt því að leika á flestum af þeim fjölmörgu tónlistarhátíðum sem eru starfandi á Íslandi, t.d. Jazz- og Listahátíð Reykjavíkur, sem og Iceland Airwaves.

Andrés Þór lauk meistaragráðu frá Konunglega Tónlistarháskólanum í Den Haag í Hollandi. Andrés flutti heim frá Hollandi árið 2004 og hefur verið virkur í íslensku tónlistarlífi síðan, gefið út fjölda platna í eigin nafni og í ýmsum samstarfsverkefnum sem hafa hlotið mikið lof jafnt hérlendis sem erlendis. Andrés starfar einnig sem tónlistarkennari við tónlistarskóla FÍH, Tónlistarskóla Hafnarfjarðar og sem stundakennari við Listaháskóla Íslands. Árið 2014 var Andrés útnefndur bæjarlistamaður Hafnarfjarðar og hefur hann hlotið ýmsar viðurkenningar í formi tilnefninga til ýmissa verðlauna, hvatningarverðlaun og listamannalaun.

Tónleikarnir standa yfir í um klukkustund og er aðgangur ókeypis.

Ummæli

Ummæli