Hér standa myndverkin upp og biðja um nýtt hlutverk

Þór Stiefel opnar myndlistasýningu í Litla gallerýinu á laugardag

Mynd eftir Þór Stiefel

„Ég hef verið að vinna með tímann í minni myndlist. Titill sýningarinnar ber í sér vísun í tíma: Framhald. Að halda áfram. Ég get ekki annað. Við höfum um fátt annað að velja. Tíminn líður áfram. Einstefna  – áfram,“ segir Þór Ludwig Stiefel listamaður sem opnar sýningu í Litla gallerýinu að Strandgötu 19 á laugardaginn kl. 14-18 og sunnudag kl. 14-18.

„Það er spennandi að vinna með tíma í miðla sem byggja á tímalínu eins og í vídeó. Málverkin sem ég sýni hér eru aftur á móti eins og frosin augnablik í tíma, svolítið eins og færslur í dagbók. Þegar ég lít á þau nú man ég tímann þegar þau voru gerð. Ég man hvernig mér leið, hvað var að gerast í kringum mig og hvað ég var að hugsa; þau eru frosin augnablik – stillur – á minni tímalínu. Að setja þau saman í eina sýningu og sjá þau í samtali er eins og að fara aftur í tímann. Svolítið eins og að líta yfir farinn veg í skjáskotum (timelaps). Að sjá þau hér saman er svolítið eins og að vinna með vídeó, eins og að fara inn í ramma hreyfimyndarinnar og upplifa sig beint í samtali við tímann sem var – þátíðarinnar,“ segir Þór um sýningu sína.

Þór Ludvig Stiefel

Hér standa myndverkin upp og biðja um nýtt hlutverk

Þessi sýning er fararsýning. Þór er að fara. Halda áfram í meistaranámi í myndlist í Prag sem hann hóf á síðasta ári. Er þetta sölusýning til að afla fararfjár að sögn Þórs.

„Eins og menn gerðu hér á öldinni sem leið til að geta stundað nám á erlendri grund og tekið inn erlenda strauma, stefnur og menningu. Þessi sýning er fjáröflun svo ég geti átt framhald og svo myndirnar eigi framhaldslíf hjá nýjum eigendum, fái nýtt hlutverk í nýju umhverfi. Hér standa myndverkin upp og biðja um nýtt hlutverk.“

Nánari upplýsingar um listamanninn má finna á tora.is

Ummæli

Ummæli