Barnabókum fagnað á útgáfugleði á fimmtudag

Guðný Anna Annasdóttir

Gudda Creative fagnar útgáfu barnabókanna „Lindís getur flogið“ og „Steindís og furðusteinarnir“ á Hótel Völlum á fimmtudaginn kl. 16-19.

Það er jafnframt verið að fagna útgáfu allra hinna bókanna, fyrstu 6 bókanna sem voru gefnar út á tímum heimsfaraldurs og er því langþráð útgáfugleði.

Höfundur bókanna er Guðný Anna Annasdóttir og eru þær myndskreyttar af syni Guðnýjar, Páli Jóhanni Sigurjónssyni, myndlistamanni. Þau hafa sterka hafnfirska tengingu því eiginmaður Guðnýjar Önnu og faðir Páls er Sigurjón Haraldsson, uppalinn Suðurbæingur.

Gudda Creative býður einnig upp á sýningu á sýnishornum af sínum eigin handprjónuðu ullarvörum sem eru hannaðar og prjónaðar af Guðnýju Önnu Annasdóttur.

Þessi langþráða útgáfugleði verður haldin á veitingastaðnum Vellir, Hótel Völlum, Tjarnarvellir 3. „Það eru allir velkomnir á útgáfugleði í gleðibænum Hafnarfirði,“ segir í tilkynningu frá útgefanda.

Ummæli

Ummæli