Árið 2016 var meðalævilengd karla 80,7 ár og meðalævilengd kvenna 83,7 ár á Íslandi.
Meðalævilengd sýnir hve mörg æviár einstaklingur á að meðaltali ólifuð við fæðingu, ef miðað er við aldursbundna dánartíðni mannfjöldans. Aldursbundin dánartíðni hefur farið lækkandi á undanförnum áratugum og má því vænta þess að fólk lifi að jafnaði lengur en reiknuð meðalævilengd segir til um.

Sé horft á meðaltal tíu ára, 2006-2015, var meðalævi karla á Íslandi 80,4 og í Sviss 80,2 ár og skipuðu þeir fyrsta og annað sætið meðal Evrópulanda. Þeim var fylgt eftir af körlum í Liechtenstein (79,9 ár), Svíþjóð (79,7) og Ítalíu (79,6), á Spáni og í Noregi (79,2 ár). Styst er meðalævilengd evrópskra karla í Moldavíu (65,6), Úkraínu (64,3) og Rússlandi (62,5).
Á sama tíu ára tímabili, 2006-2015, var meðalævi kvenna á Spáni og í Frakklandi 85,3 ár og skipuðu þær fyrsta sætið í Evrópu. Þeim er fylgt eftir af konum í Sviss (84,9), Ítalíu (84,7), Liechtenstein (84,1) og á Íslandi (83,8). Meðalævilengd kvenna er styst í Úkraínu (75), Rússlandi (74,6) og Moldavíu (73,6).
Ungbarnadauði í Evrópu lægstur á Íslandi
Árið 2016 létust 2.309 einstaklingar sem búsettir voru á Íslandi, 1.197 karlar og 1.112 konur. Dánartíðni var 6,9 látnir á hverja 1.000 íbúa og ungbarnadauði var 0,7 barn af hverjum 1.000 lifandi fæddum árið 2016.
Á tíu ára tímabili, 2006-2015, var meðal ungbarnadauði á Íslandi 1,8 af 1.000 lifandi fæddum. Hvergi í Evrópu var ungbarnadauði jafn lágur og hér. Meðal ungbarnadauði var 2,0 í San Marino og Andorra, 2,4 í Finnlandi, 2,5 í Slóveníu og Svíþjóð. Tíðastur var ungbarnadauði í Tyrklandi, 13,8 af hverjum 1.000 lifandi fæddum.
Heimild: Hagstofan