Á morgun, laugardaginn 24. maí kl. 13 bjóða Alzheimersamtökin til svokallaðrar bekkjagöngu í Hafnarfirði.
Gengið verður frá fjólubláa bekknum við Sundhöllina að Lífsgæðasetri St. Jó, þar sem samtökin eru til húsa.
Markmið að draga úr fordómum
Tilgangur göngunnar er að hvetja til umræðu um heilabilun og draga úr fordómum. Með vitundarvakningu sem þessari er stuðlað að meiri skilningi og þekkingu í samfélaginu. Gangan er einnig hvatning til líkamlegrar og félagslegrar virkni sem skiptir miklu máli fyrir heilsu og vellíðan.
Hluti af afmælishátíð
Þetta er annað árið í röð sem bekkjagangan fer fram, en í ár er hún jafnframt hluti af 40 ára afmælisári Alzheimersamtakanna. Að göngu lokinni verður boðið upp á afmælisköku í Lífsgæðasetri St. Jó.
Fjólubláir bekkir
Fjólubláa bekki má nú finna í 15 bæjarfélögum víðsvegar um land.
Allir velkomnir
Gangan í Hafnarfirði var vel sótt í fyrra og vonast samtökin til að sjá sem flesta aftur í ár. Allir eru hjartanlega velkomnir að ganga með.


