Íþróttafélag Hafnarfjarðar, ÍH, sem nýlega tryggði sér keppnisrétti í 3. deild karla í knattspyrnu varð sl. laugardag deildarmeistari í 4. deild eftir 3-2 sigur á KFS en leikurinn fór fram á Hvolsvelli.

Það voru ÍH-ingar sem fóru betur af stað og skoraði Ísak Örn Einarsson strax á 8. mínútu en Björgvin Geir Björgvinsson skoraði fyrir Vestmanneyinga á 23. mínútu. KFS bætti svo öðru marki við á 41. míntútu þegar Borgþór Eydal Arnsteinsson skoraði. KFS var með 2-1 forystu í hálfleik.
Þegar allt leit út fyrir sigur KFS náðu ÍH-ingar að jafna með marki Bergþórs Snæs Gunnarssonar á annarri mínútu í uppbótartíma og þá var framlengt. Á 7. mínútu í uppbótartíma skoraði Jón Már Ferro fyrir ÍH og tryggði félaginu deildarmeistaratitilinn í 4. deild karla í knattspyrnu 2020.



