Erfitt er að segja til um hversu margir eru skilgreindir sem fátækir í Hafnarfirði því reglubundnar mælingar á fátækt og þekking á þróun og umfangi fátæktar er takmörkuð.
Þetta kemur fram í svari Soffíu Ólafsdóttur, deildarstjóra ráðgjafar og húsnæðismála við fyrirspurn Valdimars Víðissonar, formanni fjölskylduráð um fátækt í Hafnarfirði.
Þá kemur fram í svarinu að í rannsókn á einkennum og aðstæðum fátækra á Íslandi hafi Harpa Njáls skilgreint árið 2003 algild fátæktarmörk út frá mati á lágmarksframfærslukostnaði. Niðurstöður hennar voru að upphæðir almannatrygginga og framfærslustyrks sveitarfélaga nægðu ekki til grunnframfærslu.
Eru skilgreiningar um fátækt tíundaðar og nefnd skilgreining sem miðast við að sá teljist fátækur ef tekjur hans eru lægri en 50% af miðgildi ráðstöfunartekna landa hans. Í þeim mælingum er einnig tekið tillit til fjölskyldustærðar og reiknað með að maki þurfi 70% af tekjum sambýlismanns eða -konu sinnar og börn þarfnist 50% af tekjum fullorðinnar manneskju.
Fátækt ef laun eru undir 316 þús. kr. á mánuði?
Heildarlaun fullvinnandi launamanna árið var 632 þús. kr. að meðaltali og miðgildi heildarlauna var 632 þúsund kr. sem þýðir að helmingur launamanna var með laun undir þeirri upphæð og helmingur yfir. 50% af miðgildislaunum eru þá 316 þúsund kr.
Samtals fengu 112 fjárhagsaðstoð í Hafnarfirði í janúar og 89 í febrúar og skv. ofangreindu því skilgreindir fátækir.
Í ár fær einstaklingur 190.550 kr. í fjárhagsaðstoð og hjón 304.880 kr.
111 umsóknir eru á biðlista eftir félagslegu leiguhúsnæði í Hafnarfirði. Endurmat er í vinnslu á réttindum leigjenda til áframhaldandi búsetu í félagslegu leiguhúsnæði hjá sveitarfélaginu og má áætla að um 40% af leigjendum sveitarfélagsins séu skilgreindir fátækir.
Lög um félagsþjónustu sveitarfélaga nr. 40/1991 kveða á um ákveðna þjónustuþætti sem sveitarfélög verða að veita sem grunnþjónustu til þeirra sem þurfa á að halda. Lögin kveða einnig á um skyldur við ákveðna hópa sem taldir eru þurfa á sérstakri vernd og þjónustu að halda og eru börn og unglingar einn af þeim þjónustuhópum.
Niðurgreiðslur hjá Hafnarfjarðarbæ
- Sveitarfélagið útvegar grunnskólanemendum ritföng og önnur skólagögn þeim að kostnaðarlausu.
- Leikskólagjöld eru innheimt samkvæmt gjaldskrá. Veittur er systkinaafsláttur vegna systkina sem eru samtímis í leikskóla, í frístundaheimili eða hjá dagforeldri. Annað barn fær 75% afslátt, þriðja barn og fjórða barn 100% afslátt. Eingöngu er veittur systkinaafsláttur af almennu dvalargjaldi. Foreldrar geta sótt um tekjutengdan viðbótarafslátt sem er 50% annars vegar og 75% hins vegar. Afsláttur er eingöngu veittur af almennu dvalargjaldi. Ekki er hægt að fá hvorug tveggja systkinaafslátt og viðbótarafslátt.
- Frístundastyrkir eru veittir mánaðarlega fyrir hvern iðkanda frá 6-18 ára til lækkunar á þátttökugjöldum um 4.500 kr.
- Niðurfelling á fæðisgjaldi vegna systkina í grunnskólum. Fæðisgjald er fellt niður ef börn á grunnskólaaldri í mataráskrift í sömu fjölskyldu eru fleiri en tvö og með sama lögheimili.
- Hafnarfjarðarbær veitir sérstakan húsnæðisstuðning til þeirra sem búa við erfiðar fjárhagslega og/eða félagslegar aðstæður. Sérstakur húsnæðisstuðningur er fjárstuðningur til greiðslu á húsaleigu umfram húsnæðisbætur sem veittar eru á grundvelli laga um húsnæðisbætur nr. 75/2016.
- Elli – og örorkulífeyrisþegar eiga rétt á tekjutengdum afslætti af fasteignaskatti.
- Niðurgreiðslur fyrir dagforeldra fyrir tekjulága foreldra.
- Niðurgreiðslur eru á heimaþjónustu fyrir elli- og örorkulífeyrisþegar


