Óráðin vegferð minnihlutans

Ólafur Ingi Tómasson

Í síðasta blaði Fjarðarpóstsins skrifa bæjarfulltrúar Samfylkingar­innar og VG grein um fasteigna­skatt. Þar er fullyrt að álögur á íbúa bæjarins séu auknar um 21% og að skattahækkun meirihlutans í Hafn­ar­firði eigi sér enga hliðstæðu og sé fordæmalaus í 108 ára sögu sveitarfélagsins. Jafn­framt er fullyrt að leigj­endur íbúðarhúsnæðis hafa tekið við verulegri hækkun á leigu umfram það sem gerst hefur hjá öðrum sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu vegna þessa. Það er rétt að álagningarprósenta hækkaði úr 0.28% í 0,34% en á móti lækkaði vatn- og frárennsligjald þannig að fasteignagjöld á íbúa í Hafnarfirði eru óbreytt milli ára. Innbyrðis tilfærsla frá vatns- og fráveitu­gjöldum yfir í fasteignaskatta hefur ekki áhrif á heildargjöld á íbúa, nema til lækkunar gagnvart elli- og örorkulífeyrisþegum.

Það sem rétt er

Hið rétta eins og áður er getið er að ekki var verið að hækka álögur á íbúa, og minnið virðist bregðast hjá þessum ágætu bæjarfulltrúum sem voru í meirihluta á árunum á árunum 2010-2012 þegar álagn­ingar­prósenta fasteignaskatts hækk­aði úr 0,24% í 0,32% án þess að nokkur lækkun á veitugjöldum kæmi á móti en það er hækkun um 33% sem svo sannarlega á sér ekki hliðstæðu í sögu sveitarfélagsins. Fulltrúar Samfylkingar og VG leggja jafnframt til að tekju­skerð­ingu bæjarsjóðs verði mætt með hagræðingu í yfirstjórn og stjórn­sýslu. Ekki fylgja neinar tillögur um hvar og hvernig á að hagræða, minna má á að á síðasta ári réðst núverandi meirihluti Sjálfstæðis­flokks og Bjartar Framtíðar í umfangsmiklar úttektir á rekstri sveitarfélagsins og í kjölfarið í ýmsar hagræðingar í rekstri sveit­ar­félagsins sem hafa skilað miklum ár­angri. Bæjarfulltrúum Samfylkingar og VG var boðið að taka þátt í þeirri vinnu en því boði var hafnað, þess i stað hafa þessir sömu bæjarfull­trúar í málefnaþurrð sinni staðið fyrir ómálefnalegri gagnrýni og rang­túlkunum á störfum meiri­hlutans.

Lægri álögur

Fasteignamat fyrir árið 2017 hækkaði umfram almennar verð­lagshækkanir og með aðgerðum meirihlutans í ýmsum hagræð­ingum er fjárhagur sveitarfélagsins á réttri leið og því er eðlilegt að lækka álagningarprósentu fast­eignaskatta á íbúðar- og atvinnu­húsnæði við gerð fjárhagsáætlunar fyrir næsta ár. Álögur á barna­fjölskyldur hafa lækkað verulega, má þar nefna að leikskólagjöld hafa verið óbreytt í þrjú ár, inn­ritunaraldur leikskólabarna lækk­aður úr 24 mánuðum í 18 mánuði, niðurgreiðslur til dagmæðra auknar verulega, frístundastyrkur til barna og unglinga aukinn og viðmiðunaraldur þeirra hækkaður í 18 ár. Aukin aðsókn ungs fólks í bæinn og hækkun á fasteignaverði ber þess glöggt vitni að við sem sveitarfélag erum svo sannarlega á réttri leið og Hafnarfjörður er spennandi valkostur til búsetu. Neikvæðni og rangfærslur fulltrúa Samfylkingarinnar og VG dæma sig sjálfar.

Höfundur er bæjarfulltrúi (D).

Ummæli

Ummæli