fbpx
Þriðjudagur, mars 5, 2024
HeimFréttirSkólamálÞjónustusamningur gerður um nýjan grunnskóla

Þjónustusamningur gerður um nýjan grunnskóla

Grunnskólinn Nú tekur til starfa í haust

Bæjarstjórn Hafnarfjarðarbæjar samþykkti á fundi sínum 22. júní sl. tillögu fræðsluráðs um þjónustusamning Hafnarfjarðarbæjar við Framsýn skólafélag ehf. og þar með stofnun grunnskóla Framsýnar og framlög til hans. Þetta er unglingaskóli sem hefur fengið nafnið Nú og tekur til starfa í Hafnarfirði í haust. Skólinn mun leggja áherslu á upplýsingatækni, heilsu og hreyfingu.

Hafnarfjarðarbær greiðir rekstrarframlag vegna allt að 45 nemenda úr Hafnarfirði til grunnskóla Framsýnar

Þjónustusamningur felur í sér að Hafnarfjarðarbær greiðir rekstrarframlag vegna allt að 45 nemenda úr Hafnarfirði til grunnskóla Framsýnar. Skólinn verður einnig opinn fyrir nemendur úr öðrum sveitarfélögum en bærinn greiðir ekki rekstrarframlag vegna þeirra. Menntamálastofnun hefur gefið út viðurkenningu á starfsemi skólans enda lá fyrir samþykkti Hafnarfjarðarbæjar um stofnun han. Mun hann, líkt og aðrir skólar, starfa í samræmi við gildandi grunnskólalög.

29 milljónir kr. aukakostnaður vegna skólans á haustönn

Samkvæmt viðauka við fjárhagsáætlun Hafnarfjarðarbæjar verður viðbótarkostnaði vegna tilkomu skólans mætt með breytingum innan fjárhagsáætlunar. Útgjöld bæjarins lækka vegna fækkunar nemenda í Barnaskóla Hjallastefnunar og vegna þess að miðstig skólans hættir. Er í viðaukanum gert ráð fyrir 29 milljón kr. kostnaði á þessu ári, þ.e. fyrir haustönn, en sú upphæð sparast við það að miðdeild Hjalla hættir. Rekstararframlag Hafnarfjarðarbæjar nemur 75% af vegnu meðaltali heildarrekstrarkostnaðar á hvern nemanda allra grunnskóla sem reknir eru af sveitarfélögum í landinu samkvæmt árlegum útreikningum Hagstofu Íslands og í samræmi við lög. Innifalið í þeim kostnaði er húsnæðiskostnaður, stjórnun, kennsla, sérfræðiþjónusta og annar almennur rekstrarkostnaður vegna skólastarfs. Framlag Hafnarfjarðarbæjar miðast við fjölda nemenda í skólanum í hverjum mánuði fyrir sig, allt að 45 nemendum. Er þetta í takt við það framlag sem þegar er greitt í dag með hafnfirskum nemendum sem stunda nám í sjálfstætt reknum skólum.

Skólinn er rekinn án hagnaðarsjónarmiða og mun sá rekstrarafgangur sem kann að koma til verða nýttur til að styrkja innviði hans í formi námsgagna og kennslubúnaðar eins og segir í fréttatilkynningur frá Hafnarfjarðarbæ. Skólinn hefur heimild til gjaldtöku af foreldrum eða forsjáraðilum barns fyrir þjónustu, svo sem skólagjöld og fæðisgjöld. Nýr skóli undirgengst sömu skilyrði og sama ytra mat og aðrir grunnskólar í Hafnarfirði.

Minnihluti vildi fresta afgreiðslu

Bæjarfulltrúar Samfylkingar og VG lögðu til að afgreiðslu málsins yrði frestað þar til að bæjarstjóri hefur lagt fram svör við þeim spurningum sem lagðar voru fram á síðasta bæjarráðsfundi, svör sem bæjarstjóri hefur boðað og hann hefur staðfest að snerta grundvallatriði í því máli sem hér er lagt fram til afgreiðslu. Tillagan var fell með 7 atkvæðum Sjálfstæðisflokks og Bjartrar framtíðar gegn 4 atkvæðum Samfylkingar og Vinstri grænna.

Þjónustusamningurinn var síðan samþykktur með 7 atkvæðum Sjálfstæðisflokks og Bjartrar framtíðar gegn 4 atkvæðum Samfylkingar og Vinstri grænna.

Fulltrúar Samfylkingar og Vinstri grænna ítrekuðu á fundinum fyrri bókanir um stofnun einkaskóla. Gerður þeir alvarlegar athugasemdir við þá forgangsröðun sem birtist í gjörningi fulltrúa Sjálfstæðisflokks og Bjartrar framtíðar að kosta tugum milljóna til þess að fjármagna einkaskóla á meðan skorið hefur verið niður í hafnfirskum leik- og grunnskólum. „Við minnum á að tveimur leikskólaúrræðum hefur nú þegar verið lokað í hagræðingarskyni og fyrir dyrum stendur lokun tveggja til viðbótar, þar á meðal einum elsta starfandi leikskóla bæjarins. Á sama tíma hefur þróunarsjóður leik- og grunnskóla verið skorinn niður í tvígang, nú síðast um 60 milljónir króna. Við höfnum því að einkavæðing sé forsenda nýsköpunar og teljum óforsvaranlegt að skorið sé niður í þróunar- og nýsköpunarstarfi í skólum sem reknir eru af bæjarfélaginu á sama tíma og fjármunir eru settir í að greiða fyrir nýsköpun á forræði einkaskóla.“

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2