Fimmtudagur, október 16, 2025
HeimUmræðanÞrengingar í umferðinni í Hafnarfirði, smjörþefur af því sem koma skal

Þrengingar í umferðinni í Hafnarfirði, smjörþefur af því sem koma skal

Einar Þorsteinsson skrifar

Á hverfishópnum Norðurbærinn minn á Facebook hefur átt sér stað umræða um vegaframkvæmdir við aðalinngönguleiðina í Norðurbæ Hafnarfjarðar. Þótt það sé nú ekki saga til næsta bæjar, gefa framkvæmdin og umræðan í kringum hana ákveðna mynd af stöðunni og því sem framundan er.

Þann 26. ágúst sl. var tilkynnt að vegna vegaframkvæmda yrði beygjuakrein inn á Hjallabraut frá Reykjavíkurvegi lokuð til 1. september. Í tilkynningunni var tekið fram að ekki væri gert ráð fyrir miklum áhrifum á umferð á þessu sex daga tímabili.

Raunin varð hins vegar önnur.

Þegar þessi grein er rituð, rúmum fimmtíu dögum síðar, er akreinin enn lokuð. Þegar nánar er skoðað kemur í ljós að framkvæmdin er ekki unnin af Hafnarfjarðarbæ, heldur af Betri samgöngum ohf. Tilgangur framkvæmdanna er sagður vera að bæta öryggi og upplifun fyrir „vistvæna vegfarendur“ og tengja hjólastíga við Garðabæ til að mynda samfellda leið milli sveitarfélaga. Þessar framkvæmdir gefa íbúum Hafnarfjarðar smjörþef af því sem koma skal.

Á næstu mánuðum og árum má gera ráð fyrir að tafir af þessu tagi verði daglegt brauð víðsvegar um bæinn.

Ástæðan er einföld.

Bæjarstjórn Hafnarfjarðar hefur skuldbundið sig til að afhenda Betri samgöngum stjórn og forgangsröðun samgönguframkvæmda í bænum, samkvæmt svokölluðum Samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins. Þannig hefur bæjarstjórnin í reynd framselt ákvarðunarvald í samgöngumálum Hafnarfjarðarbæjar til opinbers fyrirtækis sem hefur það eina markmið að framkvæma Samgöngusáttmálann, þ.m.t. þrengingar á helstu samgönguæðum og forgangsakreinar fyrir strætó.

Samgöngusáttmálinn og Borgarlínan

Borgarlínunni er ætlað að liggja eftir helstu samgönguæðum höfuðborgarsvæðisins, þar sem umferðin er mest.

Tvær miðakreinar, sem áður báru fjölda bíla til og frá vinnu, verða teknar undir strætó.
Það er erfitt að sjá hvernig slíkt á að leysa umferðarvanda, nema auðvitað ef markmiðið sé í raun að draga úr bílaumferð að tilstilli ríkis og sveitarfélaga.

Þessi stefna gengur út á að þrengja að akandi fólki svo mikið að það gefist upp og taki Borgarlínu.
Þetta er rauði þráðurinn í Samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins, þar sem einn megintilgangur verkefnisins er orðrétt að:

„Stuðla að því að ná loftslagsmarkmiðum stjórnvalda um sjálfbært, kolefnislaust borgarsamfélag með eflingu almenningssamgangna og deilihagkerfis í samgöngum og bættum innviðum fyrir aðra vistvæna samgöngumáta, auk þess að hvetja til breyttra ferðavenja og orkuskipta.“

Það þarf ekki að rýna samgöngusáttmálann lengi til að átta sig á að sáttmálinn snýst ekki um að bæta samgöngur í Hafnarfirði, heldur að móta hegðun íbúa í takt við hugmyndafræði um „sjálfbærni“ og „breyttar ferðavenjur“, eða einfaldlega að þrengja svo mikið að einkabílnum að fólk fer að sjá að eina leiðin sé fyrir það að taka strætó eða að hjóla.

Afleiðingar

Með undirritun sáttmálans hefur Hafnarfjörður í reynd afhent Betri samgöngum forgangsröðun samgönguframkvæmda í bænum. Það þýðir að bæjarbúar eiga síður kost á að hafa áhrif á það hvaða vegir eru bættir, hvaða gatnamót eru endurskoðuð og hvaða framkvæmdir fá forgang. Í stað þess að bæta flæði og stytta ferðatíma er fylgt miðlægri stefnu sem miðar að því að „breyta ferðavenjum“,  með þrengingum, lokunum og forgangsakreinum fyrir strætó.

Heildarkostnaður Hafnarfjarðarkaupstaðar vegna Samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins nemur fram að þessu rúmlega 1.064 milljónum króna. Í stað þess að þetta fjármagn renni í verkefni sem bæta helstu flöskuhálsa bæjarins, eins og við Hringtorgið við N1 og Kaplakrika, hefur því verið beint í verkefni Betri samgangna.

Betri samgöngur hafa í staðinn komið inn með fjármagn í hjólastíga í Hafnarfirði:

  • árið 2023: um 175 milljónir króna,
  • árið 2024: um 190 milljónir,
  • og árið 2025: um 370 milljónir króna.

Það segir sína sögu þegar milljarður króna fer út úr bænum, en fjármagnið sem kemur til baka fer eingöngu í hjólastíga og þrengingar. Ekki í að bæta flæði, öryggi eða umferð á helstu inn- og útleiðum bæjarins. Þessar fjárhæðir munu síðan bara halda áfram að hækka á næstu mánuðum og árum.

Miðflokkurinn í Hafnarfirði hafnar Samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins í óbreyttri mynd

Miðflokkurinn í Hafnarfirði hafnar alfarið hugmyndum Betri Samgangna ohf. og bæjarstjórnar Hafnarfjarðarbæjar  um að þrengja að bílaumferð í nafni vistvænna samgangna.

Við segjum nei við Borgarlínu eins og hún er hugsuð og nei við því að Hafnfirðingar þurfi að sætta sig við tafir til að uppfylla samgöngusáttmála sem er sniðinn að þörfum Reykjavíkur, en ekki Hafnarfjarðar.

Við viljum að Hafnarfjarðarbær breyti um stefnu í samgöngumálum og hugsi samgöngur útfrá forsendum Hafnarfjarðar og Hafnfirðinga, í stað þess að veita Betri Samgöngum ohf. vald til að stýra samgöngumálum Hafnarfjarðarbæjar. Ef bæjarstjórn færi í þessa stefnubreytingu væri kannski loksins hægt að fara í nauðsynlegar framkvæmdir á Hringtorginu við N1 og Kaplakrika.

Í grunninn snýst Samgöngusáttmálinn ekki bara um vegi og vagna, hann er hluti af stærra viðhorfi þar sem stjórnvöld telja sig vita betur en fólkið sjálft hvað því er fyrir bestu. Við viljum að íbúar hafi frelsi til að velja, en séu ekki þvingaðir til lausna til að svala pólitískri hugmyndafræði stjórnmálamanna.

Frelsi, ekki forræðishyggja, á að vera leiðarljós samgöngumála í Hafnarfirði.

Einar Geir Þorsteinsson
formaður Miðflokksins í Hafnarfirði

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2