Soroptimistar um allan heim standa fyrir sextán daga átaki gegn kynbundnu ofbeldi frá 25. nóvember til 10. desember.
Verða ýmsar stofnanir lýstar upp með roðagylltum ljósum meðan á átakinu stendur.
Soroptimistar hafa verið með átak gegn ofbeldi gagnvart konum og stúlkum í meira en 30 ár.
Soroptimistar vilja rjúfa þögnina varðandi ofbeldi gegn konum með því að roðagylla heiminn undir slagorðinu Þekktu rauðu ljósin og er appelsínugulur litur tákn þess. Á heimsvísu nefnist átakið „Read the Signs“. Að þessu sinni er einnig lögð áhersla á hversu mikilvægt það er að hlúa að andlegri heilsu til að hafa viðspyrnumátt gegn kynbundnu ofbeldi. Soroptimistar hafna öllu ofbeldi, hvort sem það er andlegt, líkamlegt, kynferðislegt, fjárhagslegt eða stafrænt.
Vilja stuðla að jákvæðari heimsmynd
Soroptimistar eru alþjóðleg samtök kvenna sem hafa það að markmiði að stuðla að jákvæðri heimsmynd, þar sem samtakamáttur kvenna nær fram því besta sem völ er á. Samtökin vinna að bættri stöðu kvenna, að mannréttindum öllum til handa sem og jafnrétti, framförum og friði með alþjóðlegri vináttu og skilningi að leiðarljósi. Soroptimistar stuðla að menntun kvenna og stúlkna til forystu.
Soroptimistar um allan heim munu slást í för með um 6000 samtökum í 187 löndum sem leidd eru af Sameinuðu þjóðunum til að vekja athygli á kynbundnu ofbeldi gegn stúlkum og konum með þátttöku í 16 daga átakinu #roðagyllumheiminn, #orangetheworld.
Roðagyllti liturinn táknar bjartari framtíð án ofbeldis gegn konum og stúlkum. Soroptimistar vonast til þess að opinberar byggingar verði lýstar upp með roðagylltum ljósum þá daga sem átakið stendur yfir.
Í Soroptimistaklúbbi Hafnarfjarðar og Garðabæjar eru 44 konur. Klúbburinn hefur verið starfræktur frá árinu 1973.



