Heimsfriðinum stendur hætta af öfgafullum stjórnendum stórra þjóða. Enginn er undrandi á einræðinu í Rússlandi, fáir búast við öðru. Öðru máli gegnir um Bandaríki Ameríku sem hingað til hafa verið talið flaggskip lýðræðis. Þar sést þó vel hvað lítið þarf að gerast til að lýðræðinu sé hætta búin og einræðistilburðir forseta geta valdið miklum skaða.
Öfgafullur forsætisráðherra Ísraels virðist líka iðka einræðistilburði og fara gegn vilja þjóðarinnar með ómanneskjulegu stríði við Palestínumenn undir því yfirskin að útrýma Hamas samtökunum.
Innrás Rússa í Úkraínu er með ólíkindum, eitt stærsta land heims hertekur nágrannaland og er tilbúið að fórna hundruðum þúsunda af landsmönnum sínum í því stríði. Lönd sem setja sig á háan hest og þykjast vera heimslöggur eins og Bandaríkjamenn virðast ekki hika að ráðast inn í önnur lönd undir því yfirskini að eyða hættu á að aðrir smíði kjarnorkuvopn. Samt eru Bandaríkin eina landið í heiminum sem beitt hefur slíkum vopnum í hernaði.
Aldrei sem fyrr er mikilvægt að íbúar landa sýni vilja sinn til friðar og sýni yfirvöldum þann vilja sinn á áberandi hátt. Ofbeldi er aldrei vegurinn til friðar og því þurfa slík mótmæli að vera friðsamleg.
Fjölmörg samtök berjast fyrir friði í heiminum en þau fá ekki sömu athygli og stríðsherjandi þjóðir. Ég skora á ríkisstjórn Íslands að andmæla öllum stríðum, hver sem þau hefur og láta ekki fjárhagshagsmuni hamla því. Sömuleiðis skora ég á bæjarstjórn Hafnarfjarðar að opinberlega berjast fyrir friði í heiminum og nota m.a. vinabæjarsamstarfið í þeim tilgangi.
Stríð bitnar ekki síst á þeim sem minnst mega sín og geta ekki flúið. Það eru réttindi barna að búa í friðsömum heimi og að sjálfsögðu allra landsmanna.
—
Umferðarmál verða eflaust efsta á baugi í Hafnarfirði enda fjölgar bílum sem aka í gegnum Hafnarfjörð mikið og umferðartafir á tímum miklar. Ekki hefur enn verið upplýst hvort boruð verða göng undir Setbergshamar eða að Reykjanesbrautin verði sett í stokk. Erfitt er að ímynda sér hvert umferðin eigi að fara á meðan grafinn er og steyptur stokkur fyrir Reykjanesbrautina frá Lækjargötu að Kaplakrika svo göng ættu að vera fýsilegri eins og raunin varð á Miklubraut í Reykjavík. Koma Tækniskólans á Hafnarsvæðis með um 3.000 nemendur og ný 3.500 íbúa byggð við Hvaleyrarbraut og Óseyrarbraut munu hafa gífurleg áhrif á umferð um Strandgötu og á síðasta fundi bæjarráðs kalla fulltrúar S-lista ákveðið eftir því að raunhæfar og gagnlegar tillögur verði lagðar fram í samgöngumálum á svæðinu.
Málið er alls ekki flokkspólitískt enda er öllum ljóst að staðan verði erfið. Engin önnur leið eru frá Keflavíkurflugvelli til Reykjavíkur nema í gegnum Hafnarfjörð og ákall um áratugaskeið um ofanbyggðaveg er varla lengur raunhæft. Áfram mun fólk þurfa að aka fjölfarinn þjóðveg til að komast á milli hverfa í Hafnarfirði.
Guðni Gíslason ritstjóri.