Já, svo sannarlega! Í sumar hafið þið séð framkvæmdir við Norðurgarðinn. Hann hefur verið steyptur upp og í vetur/vor verður lagt timburgólf á hann, komið fyrir bekkjum, handriðum og nýju innsiglingarljósi og er verið að vinna í útfærslu á því. Einnig verður tengingin við Norðurbakkann frágengin.
Óseyrarbryggja hefur verið endurbætt til að mæta nýju skipi Hafrannsóknarstofnunar og er meðal annars komin aðgangsstýring fyrir umferð og hún verður lokuð fyrir almennri bílaumferð á næturnar. Nú í haust hefjast dýpkunarframkvæmdir fyrir Hamarshöfn, nýja skemmtibátahöfn sem mun ná frá grjótgarðinum við dráttarbrautina og langleiðina að íþróttahúsinu við Strandgötu. Á næsta ári er svo fyrirhugað að lengja Hvaleyrarbakka alla leið að fiskmarkaðnum og olíukantinum, sem skapar pláss fyrir stóra togara til löndunar. Gamli vitinn við Vitastíg hefur fengið viðhald, bæði var lagfært í umhverfi hans og hann síðan málaður og endurbættur. Þá hefur verið bætt við bekkjum fyrir gangandi vegfarendur við Fornubúðir og Flensborgarhöfn.
Stolt Hafnarfjarðar
Við Hafnfirðingar erum afar stolt af höfninni okkar sem hefur verið burðarás atvinnulífsins í gegnum aldirnar. Hún þjónar bæði sjávarútvegi, iðnaði og sífellt fleiri ferðamönnum. Rekstur hafnarinnar eykst jafnt og þétt, meðal annars vegna aukins innflutnings á jarðefnum til malbikunar og steypu og útflutnings á hráefnum eins og járni til endurvinnslu.
Á næsta ári verður mikil aukning í komu minni skemmtiferðaskipa til Hafnarfjarðar og stundum verða allt að þrjú skip við höfn á sama tíma. Höfnin, í samstarfi við bæinn og hagsmunaaðila, vinnur nú að stefnumótun og móttöku skemmtiferðaskipa og annarra ferðamanna til bæjarins.
Nýtt líf á hafnarsvæðinu
Miklar breytingar eru framundan á hafnarsvæðinu og í nágrenni þess. Tækniskólinn mun setja sterkan svip á svæðið og vegna komu hans þarf að byggja nýtt hús fyrir Hafnarfjarðarhöfn út við hafnarkantinn. Húsasmiðjan undirbýr byggingu á stórri skemmu við Ísfell og Trefjar hyggjast reisa stórt hús handan götunnar ásamt því að aðrir lóðarhafar á hafnarsvæðinu eru að huga að nýtingu þeirra.
Að auki eru fyrirhugaðar byggingar fjölbýlishúsa í næsta nágrenni við höfnina og þegar eru hafnar framkvæmdir við tvö þeirra. Það er því ljóst að höfnin og umhverfi hennar munu taka miklum breytingum á komandi árum, breytingum sem styrkja bæði atvinnulíf og mannlíf í bænum okkar.
Svo er það Straumsvíkin, umræða um hana hefur verið mjög tengd Carbfix áformum sem nú hafa verið slegin út af borðinu en við þurfum að taka samtal um stækkun Straumsvíkurhafnar til að mæta aukinni stórskipaumferð og flutningum
Guðmundur Fylkisson
formaður hafnarstjórnar
Greinin birtist fyrst í októberblaði Fjarðarfrétta


