Á undanförnum árum hefur kostnaður við íþrótta- og tómstundaiðkun barna verið sívaxandi umræðuefni. Þrátt fyrir að samfélagið búi við almenna velmegun, eru æfingagjöld orðin veruleg byrði fyrir marga foreldra og skapa ójafnræði í aðgengi barna að uppbyggilegu frístundastarfi.
Í ár er gert ráð fyrir rúmum 800 milljónum króna til niðurgreiðslu á æfingagjöldum barna í Hafnarfirði. Hins vegar ná styrkirnir ekki alltaf til allra barna, og samkvæmt upplýsingum frá íþrótta- og æskulýðsfulltrúa eru styrkirnir oft vannýttir og nefnir hann að æfingagjöld hækki hraðar en styrkirnir.
Það sem vekur sérstakar áhyggjur er að ákveðnir hópar virðast síður nýta sér niðurgreiðslurnar. Börn með fötlun og börn af erlendum uppruna eru líkleg til að lenda utan kerfisins. Tungumálaörðugleikar, félagsleg einangrun og skortur á sérsniðnu framboði fyrir börn með sérþarfir eru meðal þeirra hindrana sem þessi börn standa frammi fyrir.
Æfingagjöld eru einnig mjög mismunandi eftir íþróttagreinum og félögum. Sum félög rukka yfir 100.000 krónur fyrir eina önn, á meðan önnur bjóða lægri gjöld en með færri æfingum eða takmarkaðri aðstöðu. Þetta getur haft áhrif á val foreldra og takmarkað möguleika barna til að stunda þá íþrótt sem þau hafa mestan áhuga á.
Til að tryggja jöfn tækifæri fyrir öll börn þarf að endurskoða hvernig frístundastyrkjum er úthlutað. Einfaldara skráningarferli, aukin upplýsingagjöf á mörgum tungumálum og sértæk úrræði fyrir börn með fötlun eru lykilatriði. Einnig mætti skoða hvort æfingagjöld ættu að vera hlutfallslega tengd tekjum heimilisins – líkt og gert er með leikskólagjöld í mörgum sveitarfélögum.
Tómstundir barna eru ekki munaðarvara – þær eru nauðsynlegur þáttur í heilbrigðu og farsælu uppeldi barna. Ef við viljum byggja upp samfélag þar sem öll börn fá að blómstra, verðum við að tryggja að aðgengi að frístundum sé raunverulega fyrir alla.
Guðni Gíslason ritstjóri.
Leiðarinn birtist í Fjarðarfréttum 11. september 2025