Miðvikudagur, janúar 7, 2026
target="_blank"
HeimFréttirGróðurhús í fylgiskjali með fundargerð um fjárhagsáætlun - Uppfært

Gróðurhús í fylgiskjali með fundargerð um fjárhagsáætlun – Uppfært

Það skortir oft á skýr fylgiskjöl með fundargerðum í ráðum og nefndum Hafnarfjarðarbæjar. Reyndar þurfa lesendur oft að leggja sig fram til að átti sig á aðalatriðum.

En með fundargerð bæjarráðs í síðustu viku, um fjárhagsáætlun Hafnarfjarðarkaupstaðar og fyrirtækja hans 2026 og 2027-2029, var ansi sérstakt fylgiskjal.

Þar er birt mynd af gróðurhúsi aftan við Strandgötu 4, við hlið Bæjarbíós. Er skjalið merkt „Vidbygging_Rosa-2-2_1920x1427px“.

Hvergi er minnst á þessa „viðbyggingu“ í fundargerðinni og við einfalda leit á vef bæjarins fannst ekkert um þetta mál. Ekkert kemur fram um það hvort þarna hafi fyrrum bæjarstjóra verið kynnt hugmynd um viðbyggingu við hús í eigu Hafnarfjarðarbæjar og á hvers vegum.

Uppfært 19.11.2026:

Síðasta verk Rósu

Fram hefur komið að Rósa Guðbjartsdóttir hafi birt á Facebooksíðu sinni eftirfarandi færslu sem hún á að hafa lagt fram á síðasta bæjarráðsfundi. Ekkert slíkt er þó að finna í fundargerð.

Hér er tillagan sem ég lagði fram í morgun og hef verið með ,,í maganum“ í 3-4 ár:

,,Undirrituð leggur til að farið verði í hönnunarvinnu og greiningu á möguleikum þess að reisa tengibyggingu aftan við Mathiesenhús, Strandgötu 4/Bæjarbíó. Markmiðið væri að nýta svæðið betur í því skyni að auðga mannlíf í miðbænum og fjölga möguleikum til afþreyingar og viðburðahalds í Hafnarfirði.

Um amk. 200 fm viðbyggingu gæti verið að ræða sem nýttist fyrir tónleika, fundi, sýningar og aðra minni viðburði þar sem allt að 130 manns gætu notið hverju sinni. Húsið yrði létt glerbygging, með litlu sviði og fyllt gróðri til að skapa hlýlega og bjarta stemningu. Á sumrin myndast gott skjól á svæðinu og liggur það vel við sól.

Leitað yrði leiða við fjármögnun framkvæmdarinnar, og mögulegs samstarfs og aðkomu einkaaðila, sem og við rekstur starfseminnar.

Meðfylgjandi er gróf tillaga að því hvernig svona viðbygging gæti litið út á umræddum stað, unnin með aðstoð gervigreindar. En spennandi möguleikar eru fyrir hönnuði að útfæra hugmyndina á frjóan og fallegan máta. Þannig myndi húsið fegra umhverfi miðbæjarins ásamt því að verða aðdráttarafl fyrir íbúa og gesti bæjarins og auðga um leið mannlífið.

Lagt er til að tillögunni verði vísað til seinni umræðu fjárhagsáætlunar 2026 og að útfærsla og undirbúningur hefjist á komandi ári.”

Veistu eitthvað um málið?

Hafðu þá samband við Fjarðarfréttir, fjardarfrettir@fjardarfrettir.is

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2