Krónan hefur nú valið þau fjórtán verkefni sem hljóta samfélagsstyrk frá Krónunni í ár.
Eitt þessara verkefna er unnið af Unglingadeildinni Björgólfi innan Björgunvarsveitar Hafnarfjarðar sem hlýtur samfélagsstyrk að upphæð 500 þúsund krónur við kaup á klifurbúnaði fyrir unglingahóp sveitarinnar.
Nýr búnaður býður upp á öruggt og heilsusamlegt tómstundastarf
Unglingadeildin Björgúlfur er opin ungmennum á aldrinum 15 til 18 ára og miðar vikuleg dagskrá deildarinnar að því að búa ungt fólk undir nýliðaþjálfun hjá Björgunarsveit Hafnarfjarðar. Hópurinn fær kynningu á starfinu sem þar fer fram, ásamt kennslu á ýmsum þáttum starfsins, svo sem ferðamennsku, rötun, fyrstu hjálp, leitartækni, fjallamennsku og fleira.
„Markmið Björgúlfs er að bjóða ungmennum upp á metnaðarfullt tómstundarstarf þar sem áhersla er lögð á útivist og hreyfingu í öruggu umhverfi. Við sóttum um samfélagsstyrk Krónunnar í þeirri von um að geta fjárfest í klifurbeltum, hjálmum og öðrum klifurbúnaði til að nýta í kennslu og æfingar. Búnaðurinn mun gera okkur kleift að bjóða ungu fólki upp á öruggt og heilsusamlegt tómstundastarf og þjálfun í útivist og björgunarstarfi. Við þökkum Krónunni kærlega fyrir styrkinn,“ segir Óskar Steinn Ómarsson, starfsmaður Björgunarsveitar Hafnafjarðar.
Áhersla á umhverfisvitund, hollustu og hreyfingu
Krónan hefur frá árinu 2013 veitt samfélagsstyrki en á síðustu árum hefur áhersla verið lögð á að ýta undir verkefni sem stuðla að umhverfisvitund eða aukinni lýðheilsu þar sem sjónum er einkum beint að ungu kynslóðinni. Fjórar stofnanir hlutu svokölluð Bambahús í ár og hefur Krónan lagt ríkari áherslu á að veita styrki til kaupa á slíkum gróðurhúsum sem nýtist einna helst til að fræða um flest sem við kemur ræktun grænmetis og hringrásarhagkerfinu.
Styrkhafar í ár eru:
- Foreldrafélag leikskólans Akrasels á Akranesi fyrir sparkvöll á lóð leikskólans
- Blakdeild Dímons/Heklu á Hvolsvelli fyrir byrjendanámskeið í blaki fyrir konur 18 ára og eldri
- Fimleikafélagið Rán í Vestmannaeyjum fyrir eflingu og stuðning við iðkun ungmenna á aldrinum 10 til18 ára
- Danssetrið á Akureyri fyrir kaupum á búnaði fyrir barnajóga og danskennslu.
- Hjólafélagið Fönn á Reyðarfirði fyrir uppsetningu á pumptrack hjólabraut í Neskaupsstað
- Gigtarfélag Íslands fyrir hreyfihóptíma ætluðum unglingum og ungmennum með gigt
- Unglingadeildin Björgúlfur innan Björgunarsveitar Hafnarfjarðar fyrir kaupum á klifurbúnaði fyrir kennslu og æfingar unglingahóps
- Reiðskólinn Hestasnilld fyrir tengslanámskeið fyrir börn á aldrinum 2 til 5 ára
- Reiðhjólabændur sem gera upp gömul hjól sem er svo dreift til efnaminni fjölskyldna
- Rafíþróttasamband Íslands fyrir verkefnið Hreyfing í leik sem stuðlar að bættri líkamlegri og andlegri heilsu barna og unglinga sem stunda tölvuleiki og rafíþróttir
- Kerhólsskóli á Borg í Grímsnesi fyrir kaupum á Bambahúsi til grænmetisræktunar
- Leikskólinn Mánaland í Vík í Mýrdal fyrir kaupum á Bambahúsi til grænmetisræktunar
- Leikskólinn Holt í Njarðvík fyrir kaupum á Bambahúsi til grænmetisræktunar
- Hlíðabær, dagþjálfun fyrir þá sem greinst hafa með heilabilunarsjúkdóm fyrir kaupum á Bambahúsi til grænmetisræktunar.


