Það er engum blöðum um það að fletta að öflugt íþróttastarf í sveitarfélagi eins og Hafnarfirði er ein sterkasta stoðin í forvarnarstarfi gegn ávana- og fíkniefnum. Rannsóknir sýna að því lengur sem börn og unglingar stunda íþróttir, þeim mun minni líkur eru á því að þau leiðist út í vímuefnaneyslu. Eins og bandaríski forsetinn John F. Kennedy orðaði svo vel: Líkamleg þjálfun er ekki aðeins lykillinn að sterkri heilsu, hún er einnig grundvöllur kraftmikillar og skapandi andlegrar hugsunar.“
Þegar börn og unglingar taka þátt í skipulögðu íþróttastarfi tileinka þau sér aga, reglusemi og metnað. Þjálfarar víða um bæinn leggja sig fram um að ná því besta fram í hverjum iðkanda – ekki aðeins á vellinum heldur einnig í daglegu lífi. Þar lærir unga kynslóðin að setja sér markmið, leggja sig fram og ekki síður að vinna saman í hópi. Þessi gildi eru ekki einungis dýrmæt á íþróttasviðinu heldur fylgja þau einstaklingnum inn í framtíðina, bæði í námi og starfi.
Það skiptir því höfuðmáli að bæjarfélögum í landinu bjóði upp á fjölbreytt úrval af íþróttum og listastarfi. Hvort sem börnin sækja í knattspyrnu, fimleika, klifur, handbolta eða tónlistarnám, þá eiga þau að finna sér farveg sem hentar þeirra áhuga og styrkleikum. Með breiðu framboði er tryggt að enginn standi utan garðs og allir geti notið þess að tilheyra jákvæðu og uppbyggjandi samfélagi.
Jafnframt er nauðsynlegt að byggja öfluga brú milli skóla, heimilis og íþróttastarfs. Í Hafnarfirði hefur verið lögð sérstök áhersla á slíkt samstarf, þar sem kennarar, þjálfarar og foreldrar ganga í takt til að styðja við börn og unglinga. Sérstaklega þarf að huga að þeim sem þurfa aukið aðhald og hvetja þau til þátttöku í íþróttum. Þar getur bærinn með markvissum aðgerðum tryggt að enginn sé skilinn eftir.
Íþróttir eru ekki aðeins leikur og skemmtun. Þær eru fjárfesting í framtíðinni – besta forvörnin sem völ er á. Við eigum að hlúa að þessu starfi af sama krafti og hingað til, því Hafnarfjörður er íþróttabær í eðli sínu. Með sameiginlegu átaki tryggjum við að börn og unglingar fái besta mögulega byr í seglin – bæði til íþrótta og lífsins sjálfs.
Hilmar Ingimundarson
á sæti í fræðsluráði og er framkvæmdastjóri hjá Björk.