„Hafnfirskir foreldrar standa almennt vaktina í uppeldinu. Foreldrar borða kvöldmat með börnunum sínum, þeir vita almennt hvar þau eru og þekkja vini þeirra,“ segir Jóna Rán Pétursdóttir forvarnarfulltrúi Hafnarfjarðarbæjar. Hún horfir til nýrra niðurstaðna Íslensku Æskulýðsrannsóknarinnar frá því í vor.
Jóna Rán hefur síðustu daga kynnt niðurstöðurnar fyrir skólastjórnendum. „92% foreldra í 10. bekk þekkja vini barnanna sinna og 94% foreldra barna í 9. bekk og 96% foreldranna í 8. bekk. Þetta eru glimrandi tölur,“ segir hún.
Foreldrarnir fylgjast með
Jóna Rán segir að um 80% foreldra fylgist með hvar börnin þeirra eru á kvöldin. „Við sjáum að almennt taka foreldrar virkan þátt í lífi unglinganna sinna. Þeir segja reglulega nei og setja skýran ramma,“ segir hún.
„Já, það er alveg óhætt fyrir foreldra að gera það án þess að hafa áhyggjur af því að þau séu ein um það.“ Þetta séu verndandi þættir í lífi unglinganna. Jóna Rán segir samfélagsmiðlanotkun unglinganna helstu áskorunina.
„Já, það sést í niðurstöðunum að unglingunum gengur illa að stýra tímanum sínum á samfélagsmiðlum. Einn af hverjum fjórum svarar játandi að hafa liðið illa komist þeir ekki inn á samfélagsmiðlana í einhvern tíma,“ segir hún.
Vilja stytta samfélagsmiðlatímann
„Um það bil helmingur hafnfirskra unglinga hefur reynt að eyða minni tíma á samfélagsmiðlum en ekki tekist.“ Mikilvægt sé að foreldrar ræði opinskátt við börnin sín um samfélagsmiðlanotkun.
„Já, þeir þurfa að ræða kosti og galla þeirra og aðstoða unglingana sína við að stýra tímanum þeirra þar. Þeir þurfa að vera góð fyrirmynd,“ segir Jóna Rán. En var eitthvað sem kom henni sérstaklega á óvart, svona ný í starfi?
„Já, það var að sjá hve hátt hlutfall unglinganna tekur þátt í tómstundum og sjálfboðaliðastarfi. Mörg þeirra eru í björgunarsveitinni eða sjálfboðaliðar hjá Rauða krossinum. Það kom mér skemmtilega á óvart.“
Finna má könnunina á vef Hafnarfjarðarbæjar.