Sorgarmiðstöð stendur nú fyrir fjórðu árlegu tendrun sorgartrésins í Hellisgerði.
Tendrað verður á ljósunum 7. desember næstkomandi. Þetta hátíðlega augnablik hefur fest sig í sessi sem mikilvægur hluti af jólaundirbúningi margra.
Í ár, líkt og í fyrra verður tvinnuð saman ljósaganga og tendringu sorgartrésins. Göngufólk safnast saman við Lífsgæðasetrið St. Jó á Suðurgötu kl. 17.30 þar farið verður með nokkur orð um jólin og sorgina. Síðan verður gengið saman með kerti í hönd í átt að Hellisgerði þar sem kveikt verður á Sorgatrénu við fallega athöfn. Dagskráin í Hellisgerði hefst kl. 18 þar sem hinir fögru ljósapunktar trésins munu lýsa upp desembermyrkrið og veita birtu inn í hjörtu þeirra sem syrgja.
Hugmyndin með Sorgartrénu er að öll þau sem hafa misst ástvin geti sest undir tréð og minnst þeirra sem fallin eru frá, á þessum ljúfsára tíma sem jólin eru fyrir syrgjendur. Sorgartrénu er einnig ætlað að vekja athygli á stöðu syrgjenda sem eiga um sárt að binda á þessum tíma árs.
Allir eru velkomnir, hvort sem þeir vilji sýna stuðning eða vilji minnast ástvina.


