Ný sameinuð miðstöð fyrir fatlað fólk í Hafnarfirði verður opnuð á næstu vikum Selhellu 7 og Suðurgöt 14. Fjórar deildir verða sameinaðar undir merkjum Miðstöðvar vinnu og virkni og fær 75% stærra húsnæði.
„Þetta er framfaraskref í málaflokknum í Hafnarfirði,“ segir Þórdís Rúriksdóttir, sem verður forstöðumaður nýju miðstöðvarinnar. „Stærra rými fyrir alla, betri vinnuaðstaða og aukin þjónusta við fatlaða Hafnfirðinga. Miðstöðin sinnir um fimmtíu einstaklingum og er pláss fyrir fleiri.
Valdimar Víðisson bæjarstjóri er ákalega stoltur af þessari breytingu. „Hér er verið að bæta vinnuaðstöðu og efla starfsemina. Samhliða þessum breytingum þá eykst þjónustan og við höfum enn frekari tækifæri til að efla hana í framtíðinni.“
Þessi nýja Miðstöð vinnu og virkni verður staðsett bæði á Selhellu 7 og Suðurgötu 14. Með sameiningu allra úrræðanna stækkar aðstaðan, fer úr 900 fermetrum í um 1600 fermetra. Búist er við að miðstöðin opni breytt og bætt á næstu vikum, en verið er að leggja lokasmiðshöggið á hana. Aðbúnaðurinn verður fyrir vikið mun betri fyrir alla hópa miðstöðvarinnar en áður var.
Fjórar deildir, allar með sitt sérsvið, sameinast í miðstöðinni:
- Miðstöð Umhverfisvaktar – hópur sem nú er á Suðugötu 14 mun flytja á Selhellu 7 í nýtt og glæsilegt húsnæði. Þar verður aðaláherslan lögð á margskonar vinnuverkefni.
- Miðstöð félags- og líkamlegrar virkni – hópur sem nú er á Suðurgötu fer í nýtt rými í sama húsnæði. Þar verður aðaláhersla á félagslega og líkamlega virkni.
- Miðstöð Skynörvunar og Miðstöð óhefðbundna tjáskipta – Þessir hópar sem nú eru í Bæjarhrauni 2 munu flytja á 1. hæð á Suðurgötu 14 í stærra rými en þau hafa haft til þessa. Í Hæfingarstöðinni Bæjarhauni hefur verið unnið faglegt og flott starf í mörg ár í fremstu röð á alþjóðlegan mælikvarða. Hóparnir njóta við breytingarnar góðs af allri fagþekkingunni í húsinu.
- Starfsemi Geitunga skiptist í Miðstöð umhverfisvaktar og svo miðstöð félags- og líkamlegrar virkni.
Unnið verður markvisst að því að fjölga vinnuverkefnum fyrir þá sem eru í vinnuhóp. Einnig að gera enn betur í að eyða stimplun gagnvart fötluðu fólki með því að vera sýnileg á almennum vinnumarkaði.
Þórdís segir stofnanir bæjarins hvattar til að taka þátt. „Já, þetta er ákall. Eitt og eitt verkefni getur lyft grettistaki ef allir leggjast á eitt,“ segir hún.
Málið fór fyrir fjölskylduráð Hafnarfjarðarbæjar miðvikudaginn 9. september. Ráðið fagnaði skýrri framvindu þess. „Þessi þróun stuðlar að bættri lífsgæðum, sterkari samfélagslegri þátttöku og jöfnum tækifærum til að nýta hæfileika sína og færni,“ segir í fundargerð ráðsins.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Hafnarfjarðarbæ