SH-ingar sigursælir á Íslandsmeistaramótinu í 25 m laug

Dadó Fenrir Jasminuson og Jóhanna Elín Guðmundsdóttir úr SH voru stigahæst og röðuðu inn verðlaunum. - Ljósm. af Instagram

Íslandsmeistaramótið í 25 m laug var haldið í Ásvallalaug um helgina með keppendum frá 15 félögum.

Sundfélag Hafnarfjarðar var sigursælast á mótinu, með 50 verðlaun alls, 20 fleiri en Breiðablik sem varð í öðru sæti. Náði SH 21 gullverðlaunum, 17 silfurverðlaunum og 12 bronsverðlaunum og setti tvenn Íslandsmet og piltamet.

Í heildina voru sett 2 Íslandsmet, 8 piltamet, 1 telpnamet og 1 drengjamet á mótinu um helgina.

Jóhanna og Dadó stigahæst

Jóhanna Elín Guðmundsdóttir úr SH varð stigahæst kvenna samkvæmt stigatöflu FINA, með 773 stig fyrir 100 m skriðsund. Jóhanna náði á mótinu tveimur lágmörkum á HM25 sem haldið verður í Abu Dhabi um miðjan september, en það gerði hún í 50  og 100 m skriðsundi.

Bestan árangur karla náði Dadó Fenrir Jasminuson úr SH fyrir 100 m skriðsund en fyrir það fékk hann 737 stig.

SH setti Íslandsmet í 4×50 m skriðsundi karla

Daði Björnsson, Símon Elías Statkevicius, Birnir Freyr Hálfdánarson og Dadó Fenrir Jasminuson.

A-sveit SH setti Íslandsmet í 4x 50 m skriðsundi karla er sveitin synti á 1:31,69 mín. Gamla metið var fjögurra ára gamalt, 1:32,70 og var einnig í eigu SH-inga.

Sveitina skipuðu þeir Dadó Fenrir Jasminuson, Símon Elías Statkevicius, Birnir Freyr Hálfdánarson og Daði Björnsson.

SH setti Íslandsmet í blönduðum flokki

Steingerður Hauksdóttir, Símon Elías Statkevicius, Jóhanna Elín Guðmundsdóttir og Dadó Fenrir Jasminuson.

SH setti Íslandsmet í 4×50 m skriðsundi í blönduðum flokki.

A-sveit SH sigraði á tímanum 1:36,95 mín en SH-ingar áttu metið fyrir, sem var 1:38,63 mín.

Sveitina skipuðu þau Dadó Fenrir Jasminuson, Símon Elías Statkevicius, Jóhanna Elín Guðmundsdóttir og Steingerður Hauksdóttir.

Birnir Freyr setti tvö piltamet í flugsundi

Birnir Freyr Hálfdánarson úr SH setti piltamet í 50 m flugsundi er hann bætti met Fannars Snævars Haukssonar úr ÍRB frá því í undanrásum greinarinnar í morgun. Birnir Freyr synti á tímanum 24,68 sek en Fannar hafði synt á 25,12 sek í morgun og slegið metið sem Birnir setti með millitíma í 100 m flugsundi á fyrsta degi mótsins. Birnir endurheimti því metið sitt í lok móts.

Þá setti Birnir einnig piltamet í 100 m flugsundi er hann synti á 54,94 sek og bætti met sem sett var fyrr um daginn.

Snorri Dagur setti piltamet í bringusundi

Snorri Dagur Einarsson úr SH sigraði 50 m bringusund á tímanum 28,40 og bætti piltametið í greininni en það var 28,47.

Björn Yngvi setti piltamet í skriðsundi

Björn Yngvi Guðmundsson úr SH synti fyrsta sprett í 4×100 m skriðsundi á tímanum 53,94 og bætti þar með drengjametið í þeirri grein. Gamla metið var 54,38 frá árinu 2015.

Daði setti piltamet í bringusundi

Daði Björnsson úr SH tvíbætti piltametið í 100 m bringusundi þegar hann synti fyrsta á 1:01,90 mín og síðan á 1:01,60 mín í úrslitum en gamla metið var 1:02,06.

Ummæli

Ummæli

Skilja eftir athugarsemd

Please enter your comment!
Please enter your name here