1.134 kláruðu heilt maraþon sl. laugardag í Reykjavíkurmaraþoninu og meðal þeirra var fjöldi Hafnfirðinga.
Kanadískur hlaupari kom fyrstur í mark á 2,20.33 tímum og portúgalskur hlaupari kom síðastur í mark á 7,22.44 tímum, eða rúmum fimm tímum á eftir fyrsta hlauparanum.
Fyrstur Íslendinga var Sigurður Örn Ragnarsson sem kláraði á 2,37.07 tímum og Verena Karlsdóttir á 3,19.57 tímum. Aðeins einn hlaupari var í flokki 80 ára og eldri, Rúmeni sem kom í mark á 4,31.40 tímum.
Þar sem ekki er hægt að sjá í úrslitum hlaupsins, félag eða búsetu, er ekki hægt að sjá hversu margir Hafnfirðingar tóku þátt en án ábyrgðar, þá kom Tómas Beck fyrstur Hafnfirðinga í mark á 3,14.00 tímum.
Hálft maraþon
Alls kláruðu 2.866 hálft maraþon og kom Arnar Pétursson fyrstur í mark á 1,08.19 klst. og Halldóra Huld Ingvarsdóttir á 1,22.05 klst.
Hildur Aðalsteinsdóttir úr Skokkhópi Hauka varð 7. konan í mark á 1,27.54 klst. og Brynjar Viggósson, einnig í Haukum kom í mark á 1,28.02 klst. og var í 74. sæti og líklega fyrstur Hafnfirðinga.
Fólk gaf sér mismikinn tíma til hlaupsins og síðasti hlauparinn kom í mark á 4,14.07 tímum.
10 km hlaup
Alls luku 5.616 hlauparar 10 km hlaupi þar sem forsendur voru eflaust mjög margar og sennilega hlupu flestir til að gera sitt besta og aðrir bara til að hafa gaman af.
Hlynur Andrésson kom fyrstur í mark á 30,24 mínútum og Sigþóra Brynja Kristjánsdóttir kom í mark á 36,23 mínútum.
Ljósmyndari Fjarðarfrétta fylgdist með hlaupurum og reyndi að ná myndum af Hafnfirðingum eða félögum í hafnfirskum félögum og þá helst úr Hlaupahópi FH og Skokkhópi Hauka.
Mikil stemming var á fjölmörgum stöðum við hlaupabrautina þar sem fólk hvatti hlaupara til dáða með ýmsum hætti.