Tvennir hafnfirskir tvíburar í metsveitum Íslands í 200 m boðhlaupi

Fimm af átta Íslandsmethöfum úr frjálsíþróttadeild FH

Íslandsmethafar í 200 m boðhlaupi, f.v.: Ari Bragi Kárason, Hinrik Snær Steinsson, Kormákur Ari Hafliðason og Ívar Kristinn Jasonarson.

Bæði kvenna- og karlalið Íslands í 200 m boðhlaupi settu sl. sunnudag Íslandsmet á alþjóðlega Reykjavíkur­mótinu sem upp á enska tungu nefnist Reykavík Inter­national Games, RIG.

Tvennir hafnfirskir tvíburar úr FH voru í liðunum ásamt Ara Braga Kárasyni og voru því fimm af átta kepp­endum úr FH og þrír af fjórum í karlaliðinu.

Tvíburarnir eru annars vegar Mel­korka Rán og Kormákur Ari Hafliða­börn og börn Öddu Maríu Jóhannsdóttur og hins vegar Hinrik Snær og Þórdís Eva Steinsbörn og börn Súsönnu Helgadóttur.

Íslandsmethafar í 200 m boðhlaupi f.v.: Melkorka Rán Hafliðadóttir, Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir, Glódís Edda Þuríðardóttir og Þórdís Eva Steinsdóttir.

Kvennaliðið sigraði á 1,37.72 mínútum en lið Bandaríkjanna varð í öðru sæti og B-lið Íslands í því þriðja. Auk Íslandsmets setti liðið einnig mótsmet. Í liðinu voru auk Melkorku Ránar og Þórdísar Evu þær Guðbjörg Jóna Bjarnadóttir og Glódís Edda Þuríðar­dóttir. Fyrra Íslandsmet var 1,38.43 mínútur sem sveit ÍR setti í Kaplakrika í mars í fyrra.

Karlaliðið varð í öðru sæti á 1,27.13 mínútum sem er nýtt Íslandsmet en lið Bandaríkjanna sigraði á nýju mótsmeti, 1,26.40 mín. Fyrra Íslandsmet var 1,27.94 mín. sem sveit FH setti í mars 2017.

Ummæli

Ummæli