fbpx
Mánudagur, mars 4, 2024
HeimÍþróttirFrjálsarSló 30 ára gamalt Íslandsmet

Sló 30 ára gamalt Íslandsmet

Kolbeinn bætti 30 ára gamalt Íslandsmet
Kolbeinn Höður Gunnarsson úr FH bætti Íslandsmetið í 60 metra hlaupi innanhúss á Nike mótaröðinni í Kaplakrika í gær.

Kolbeinn hljóp hratt í undanúrslitum og var lokatími hans 6,81 sek. sem var þá aðeins einum hundraðasta úr sekúndu frá meti Einars Þórs Einarssonar.

Í úrslitahlaupinu kom Kolbeinn í mark á 6,68 sek. og bætti þar með 30 ára gamla metið um tólf hundruðustu úr sekúndu. Var það sett 2 árum áður en Kolbeinn fæddist.

„Tilfinningin mín var ekki sú að ég væri að hlaupa hratt. Ég hef átt erfitt með að ná afslöppuninni inn í endahraðann og þarna náði ég því svo sannarlega. Þetta er langt frá því að vera tipp topp og margt hægt að bæta þannig ég trúi því að það sé meira inni,“ sagði Kolbeinn eftir hlaupið.

Tími hans er aðeins þremur hundruðustu úr sekúndu frá lágmarkinu í 60 m hlaupi á EM innanhúss sem verður haldið í Istanbul í byrjun mars, en það er 6,63 sek.

„Er maður ekki allltaf að stefna á stóru mótin?“ sagði Kolbeinn og stefnir hann að sínu öðru stórmóti á ferlinum. Framundan hjá honum er sterkt mót í Árósum í Danmerku í lok janúar og Meistaramót Íslands sem er 18.-19. febrúar.

FH-ingar röðuðu sér í þrjú efstu sætin í úrslitunum og náðu allir sínum besta árangri og komu allir í mark á undir 7 sekúndum.

Dawid Boc (22) varð annar á 6,97 sek. og Gylfi Ingvar Gylfason (25) varð þriðji á 6,98 sekúndum.

Heildarúrslit mótsins má finna hér.

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2