Anton Sveinn og Guðrún Brá eru íþróttamenn Hafnarfjarðar

Anton Sveinn McKee og Guðrún Brá Björgvinsdóttir.

Íþróttamenn Hafnarfjarðar voru útnefndir í gær á íþróttahátíð í íþróttahúsinu við Strandgötu í gær. Guðrún Brá Björgvinsdóttir úr Golfklúbbnum Keili var útnefnd íþróttakona Hafnarfjarðar 2022 og Anton Sveinn McKee úr Sundfélagi Hafnarfjarðar var valinn íþróttakarl Hafnarfjarðar 2022. Þetta er þriðja árið í röð sem Guðrún Brá er valin íþróttakona Hafnarfjarðar og annað árið í röð sem Anton Sveinn er valinn íþróttakarl Hafnarfjarðar

Þá var frjálsíþróttalið FH í meistaraflokki karla og kvenna valið afrekslið Hafnarfjarðar 2022.

Hafnarfjarðarbær veitti viðurkenningar til íþróttafólks sem keppir með hafnfirskum liðum, Íslandsmeistara, hópa bikarmeistara, Norðurlandameistara, heimsmeistara og sérstakra afreka, ásamt vali á íþróttakonu, íþróttakarli og íþróttaliði Hafnarfjarðar.

Afrekslið 2022 er Frjálsíþróttadeild FH, meistaraflokkur

Íþróttalið Hafnarfjarðar 2022 er meistaraflokkur karla og kvenna í frjálsíþróttum hjá Fimleikafélagi Hafnarfjarðar. Liðið stóð sig frábærlega á árinu, sigraði í öllum frjálsíþróttamótum sem keppt var til stiga á árinu fyrir utan eitt og vann þannig 11 stigakeppnir á Íslands- og bikarmeistaramótum af 12 mögulegum. Þá vann liðið til fjölda titla bæði á Meistaramótum sem og í Bikarkeppni.

Guðrún Brá Björgvinsdóttir, íþróttakona Hafnarfjarðar 2022

Guðrún Brá Björgvinsdóttir kylfingur úr Golfklúbbnum Keili er atvinnukylfingur í golfi og leikur á Evrópumótaröð kvenna þar sem hún var með fullan þátttökurétt á árinu. Hún tók þátt í sextán mótum á árinu og besti árangur hennar var 10. sæti á ATS mótinu í Bangkok. Guðrún Brá er ein af fremstu kylfingum landsins og hefur verið það í mörg ár. Í dag er Guðrún 162. sæti á styrkleikalista LET Evrópumótaraðarinnar. Guðrún Brá  er í sæti 783 á heimslista atvinnukvenna í golfi og bætir sig á milli ára.

Anton Sveinn McKee, íþróttakarl Hafnarfjarðar 2022

Anton Sveinn McKee sundmaður úr Sundfélagi Hafnarfjarðar. Anton Sveinn er landsliðsmaður fyrir íslenska landsliðið í sundi og þátttakandi á heimsmeistaramóti og Evrópumeistaramóti í 50 m laug þar sem hann lenti í 6. sæti í úrslitakeppni í 200 m bringusundi á báðum mótum. Einnig var hann þátttakandi á heimsmeistaramóti í 25m laug þar sem hann lenti í 10. sæti í 200 m bringusundi og í 18. sæti í 100 m bringusundi. Hann æfir og keppir með atvinnumannaliði í sundi. Anton Sveinn var valinn sundkarl Sundsambands Íslands 2022.

Ummæli

Ummæli