fbpx
Laugardagur, maí 18, 2024
HeimFréttirSkipulagsmálDrög að rammaskipulagi kynnt fyrir Flensborgarhöfn og Óseyri

Drög að rammaskipulagi kynnt fyrir Flensborgarhöfn og Óseyri

Byggt á niðurstöðum úr arkitektasamkeppni og unnið af tveimur arkitektastofum

Í dag verða drög að rammaskipulagi fyrir Flensborgarhöfn og Óseyrar­svæði kynnt á opnum íbúa­fundi í Hafnarborg kl. 17.30. Ein af forsendum í arkitektasamkeppni sem hald­in var um svæðið var að móta blandaða og þétta byggð við Flensborgarhöfn og Ós­­eyrarsvæði í góðri sátt við að­liggj­andi hverfi og hafnar­starfsemi, í takti við ríka sögu og gæði staðarins.

Vinnan við gerð ramma­skipulagsins var í höndum tveggja arkitektastofa, Jvant­spijker í Hollandi og Kjellgren Kaminsky og Mareld í Sví­þjóð. Hefur Orri Steinarsson hjá Jvantspijker verið yfir­arkitekt verkefnisins.

Haldnir hafa verið þrí opnir íbúafundir auk sér funda með lóðarhöfum. Þar var velt upp hugmyndum um svæðið og var unnið með athugasemdir og tillögur af þeim fundum.

Í raun þrjú svæði

Rammaskipulagstillagan

Unnið er með þrjú mis­munandi svæði sem þó tengjast með einum eða öðrum hætti. Á Óseyrarsvæðinu þar sem áður var iðnaðarhverfi er fyrirhuguð íbúðabyggð sem hefur góða tengingu við hafnarsvæðið og miðbæinn sem og gott aðgengi að almenningssamgöngum. Þar verður hægt að bjóða upp á fjölbreyttar gerðir íbúða þar sem áhersla verður lögð á gott aðgengi hjólandi og gangandi umferðar með góðum skjól­góðum inngörðum, og bíla­stæði að mestu í bílageymslum.

„Hafnartorgið“ á að verða miðpunktur svæðisins.

Á Flensborgarhafnarsvæð­inu verður möguleiki á bland­aðri starfsemi í hvaða formi sem er.
Slippsvæðið, frá Fornu­búð­um í átt að miðbænum er hugsað sem blönduð byggð þar sem gert er í meginatriðum ráð fyrir starfsemi á neðri hæðum og íbúum eða skrif­stofum á efri hæðum. Lögð var áhersla á lágvaxna byggð með „ásættanlegu“ byggingarmagi og kvörðun húsa í takt við sérkenni Hafnarfjarðar.

Á Slippsvæðinu er gert ráð fyrir skjólgóðu hafnartorgi þar sem þær nýbyggingar sem verða á svæðinu skapi mögu­leika á mörgum veitinga­stöðum, kaffihúsum og af­þreyingu af ýmsu tagi.

Möguleikar á gosbrunni, leiktækum fyrir börn og aðlaðandi setsvæði verði á torginu en torgið er hugsað til að styrkja svæðið og mögu­leika Hafnfirðinga til að heim­sækja höfnina. Þá er einnig hugað að menningar­minjum og lagt til að minningin um slippinn verði með einum eða öðrum hætti gerð skil.

Siglingarklúbburinn færist nær miðbænum og aukast þá möguleikar hans til að stækka og dafna.

Lagt er til að hringtorgið við Íshúsið verði aflagt og þar komi hefðbundin gatnamót.

Tenging við miðbæinn

Íbúðabyggð verður milli Hvaleyrarbrautar og Óseyrarbrautar

„Mikil áhersla var lögð á að tengja vel miðbæinn við höfnina og teljum við sem sátum í stýrihópnum að svo hafi tekist,“ segir Kristín Thoroddsen, formaður strýri­hóps fyrir verkefnið. „Tré og bekkir, göngustígar og mögu­leikar á veitinga- og kaffi­húsum taka á móti gestum og gangandi, hvort sem það er íbúum, þeim sem þarna stunda atvinnu eða koma í heimsókn. Væntingar eru til þess að á svæð­inu dafni matarmarkaður og skap­andi starfsemi í bland við ið­­andi mannlíf og íbúa,“ segir Kristín.

Enn aðeins hugmyndir

Rammaskipulagið er í raun nánari útfærsla á aðalaskipulagi og áður en hægt verður að hefja framkvæmdir þarf að samþykkja deiliskipulag. Því er ekki hægt að taka útlit húsa sem tillögur eða áætlanir og margt getur breyst þar til endanleg útfærsla verður til. Þó er rammaskipulaginu ætlað að móta stefnuna og undir eðlilegum kringumstæðum er byggt á því skipulagi.

Opið svæði þar sem slippurinn er núna og Siglingaklúbburinn Þytur færist nær miðbænum.

Glærukynningu af fundinum má sjá hér: Drog20191015OSHAFNGLAERUKYNNING2.

Ólíkt rammaskipulaginu fyrir Hraunin, sem aðeins var samþykkt í skipulags- og byggingarráði, er ætlunin að rammaskipulagið fái lög­form­lega afgreiðslu í stjórnkerfinu.

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2