Ný deiliskipulagstillaga í miðbænum vekur hörð viðbrögð

Ný viðbygging við húsnæði Súfistans gæti hækkað um 3 m frá gildandi skipulagi

Útlínur viðbyggingar við Strandgötu 19 gætu verið svona skv. deiliskipulagstillögu.

Tillaga að breyttu skipulagi fyrir Strandgötu 9, þar sem Súfistinn er núna, hefur vakið þó nokkra umræðu á samfélagsmiðlum og virðist sem andstaða sé töluverð.

Gert er ráð fyrir í núgildandi skipulagi frá 2005 að mögulegt sé að byggja við húsið og að þar megi vera allt að 601,2 m² grunnflötur bygginga en núverandi hús er samtals 235,9 m².

Hugmyndir að útliti viðbyggingar skv. gildandi skipulagi.

Sótt er nú um lóðarstækkun úr 334 m² í 351,2 m² og að byggingarmagn megi verða 667,3 m² og að nýtingarhlutfall verði 1,9 en er skv. gildandi skipulagi 1,8. Segir jafnframt að áður hafi nýtingarhlutfall verið 2,2 en það var í skipulagi frá 2001 þegar lóðin var 311,5 m²

Sótt um 3ja metra hækkun

Skýringarmyndir með deiliskipulagstillögunni. Efri hlutinn er skv. tillögum frá 2019 en neðri eru þær nýjustu.

Þá er gert ráð fyrir í nýrri deiliskipulagsbreytingu sem nú er kallað eftir athugasemdum við, að hámarksmænishæð hækki úr 8 metrum í 11 metra og að hámarkshæð veggja verði 8 og hækki um hálfan metra frá núgildandi skipulagi.

Ásýnd í norður eftir Strandgötu
Ásýnd að Strandgötu 9

Gert er ráð fyrir að ný viðbygging verði 220 m² með grunnfleti, kjallari verði stækkaður, hluti af viðbyggingu verði ein hæð með flötu þaki, en annars tvær hæðir og portbyggt ris með kjallara að hluta.

Ásýnd frá gamla Venusarhúsinu sem búið er að færa að Austurgötu

Á lóð vestan megin við húsið er kvöð um aðkomu farartækja, 3 m breiðu svæði fyrir gegnumakstur að Strandgötu 9 og Austurgötu 10b.

Níu smáíbúðir á 2. og 3. hæð og 203 m² mathöll

Viðbygging á að hýsa stækkun á veitingarými á jarðhæð, auk inngangs fyrir íbúðir, stigagang og lyftu.  Tæknirými og snyrtingar fyrir veitingastað verða í stækkuðum kjallara, og á 2. og 3. hæð viðbyggingar auk rishæðar núverandi húss verða allt að 9 smáíbúðir.

Í kynningu á hugmyndunum kemur fram að reiknað er með fjórum 33 m² íbúðum, og fimm íbúðum frá 50 til 78 m². Þá er gert ráð fyrir að „mathöll“ verði á jarðhæð í um 203 m² sem skiptist í veitingarými og veitingastaði. Sjá má kynninguna hér.

Ásýnd í suður frá Austurgötu.

Á þaki þess hluta nýs veitingarýmis sem snýr að Strandgötu er gert ráð fyrir þaksvölum, en það ásamt því að íbúðahluti stækkunar færist innar í byggingarreit, verðir til þess að rýmra verður um gamla húsið og það njóti sín betur í götumyndinni skv. mati höfunda deiliskipulagstillögunnar.

Aðgengi að íbúðum og hjóla- og vagnageymslum er úr 2 m breiðu sundi norðan byggingar, milli Strandgötu 9 og Austurgötu 10b.

Þá kemur fram í deiliskipulagstillögunni að sorpgeymslur og sorphirða verði leyst í samráði við bæjarfélagið.

Deiliskipulagstillagn er sú til hægri á myndinni.

Núverandi breytingartillaga er sögð byggð á þeim heimildum sem samþykktar voru í skipulags- og byggingarráði og í bæjarstjórn 2019, en hlutu ekki endanlega afgreiðslu Skipulagsstofnunar og hafa því ekkert gildi. Hafði gleymst að í breytingum frá 2005 og 1995 hafði í skipulagi verið gert ráð fyrir kvöð um gönguleið sem ekki kom fram í tillögunni sem bæjarstjórn samþykkti. Núgildandi deiliskipulag fyrir lóðina má sjá hér.

Alls hafa þegar verið staðfestar af Skipulagsstofnun 22 breytingar á deiliskipulaginu Miðbær Hafnarfjarðar sem samþykkt var 2001.

Unnið hefur verið að því að gera nýtt deiliskipulag fyrir miðbæ Hafnarfjarðar en ekkert hefur heyrst af þeirri vinnu eftir mjög umdeilda skýrslu sem vinnuhópur skilaði af sér 2019. Er því enn verið að gera breytingar á eldra deiliskipulagi án þess að það þurfi endilega að samrýmast markmiðum nýs skipulags.

Athugasemdarfrestur til 1. mars

Hægt er að gera athugasemdir við deiliskipulagstillöguna til 1. mars með því að senda rökstuddar athugasemdir á skipulag@hafnarfjordur.is

 

 

Ummæli

Ummæli