fbpx
Þriðjudagur, október 8, 2024
HeimFréttirUngmennahús opnað í gömlu Skattstofunni á mánudag

Ungmennahús opnað í gömlu Skattstofunni á mánudag

Ungmenni 18-25 ára munu móta starfsemina sjálf

Í dag var nýtt ungmennahús kynnt fyrir starfsmönnum Hafnarfjarðarbæjar og fleirum. Ungmennahúsið er að Suðurgötu 14, í gamla Skattstofuhúsinu. Nýtir ungmennahúsið rúmlega helming að 2. hæðinni sem er jarðhæð frá Suðurgötu.

Starfsemin og húsið var kynnt fyrir m.a. starfsfólki Hafnarfjarðarbæjar.

Töluverða vinnu þurfti til að aðlaga húsnæðið að þörfum ungmennanna, veggir voru rifnir, aðrir settir upp, málað og ný gólfefni lögð en húsinu er ætlað að fylla það tómarúm sem myndaðist þegar Gamla bókasafnið og síðar Húsið í Staðarbergi hvarf úr rekstri fyrir þennan hóp. Er húsið ætlað ungmennum 16-25 ára

John Friðrik Bond Grétarsson er verkefnisstjóri ungmennahússins.

John Friðrik Bond Grétarsson hefur verð ráðinn verkefnisstjóri ungmennahússins en hann hefur verið með í að móta húsnæðið og starfsemina sem þar verður. John er með tómstunda- og félagsmálafræðimenntun og starfaði síðasta ár sem tómstunda- og æskulýðsfulltrúi í Vogum. Hann hefur þrátt fyrir ungan aldur langa reynslu af stöfum með unglingum, m.a. í félagsmiðstöðvum hjá Hafnarfjarðarbæ.

Starfsemi hefst á mánudag

Starfsemi hefst í húsinu á mánudag en það verða ungmennin sjálf sem munu móta starfið undir handleiðslu góðs fólks.

Góð aðstaða er til afþreyingar í húsinu en starfið munu ungmennin móta sjálf.

Ungmennaráð Hafnarfjarðar hefur þrýst á opnun slíks húss og bókaði m.a. á fundi sínum 23. janúar 2018 eftirfarandi: „Við teljum að það þurfi ungmennahús í Hafnarfirði og að skattstofan sé tilvalin staður í það. Skattstofan er miðsvæðis og auðvelt að koma í strætó. Það þyrfti starfsmann sem sér einungis um ungmennahúsið. Við hvetjum fræðsluráðið til að breyta Húsinu í ungmennahús og viljum við í ungmennaráði taka þátt í að koma með hugmyndir í uppbyggingu þess. Væri frábært að fá endurgjöf frá fræðsluráði.“

Fræðsluráð fóls svo fræðslustjóra strax í febrúar sama ára að greina þörf á stofnun ungmennahúss, óska eftir umsögnum frá skólastjórum og nemendaráðum framhaldsskóla í bænum, fá mat á sambærilegri starfsemi í öðrum sveitarfélögum og reynsluna af ungmennahúsi, Gamla bókasafninu/Húsinu í Hafnarfirði. Einnig hvernig umsjón og rekstri yrði háttað og mat á kostnaði.

Eldhúsið varð vinsælt meðal þeirra sem skoðuðu húsið og kannski verður það miðdepill starfseminnar?

Hugmyndin er nú orðin að veruleika og verður fróðlegt að fylgjast með því hvernig húsnæðið verður nýtt og hversu margir munu koma til með að nýta það en einkum er horft til þeirra sem ekki eru í skipulögðu tómstundastarfi.

 

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2