Styrktu krabbameinssjúkan hlaupafélaga

Hlaupahópur FH hefur árlega staðið fyrir bleiku hlaupi og safnað til styrktar krabbameinssjúkum

Hörður J. Halldórsson formaður Hlaupahóps FH ásamt Þórunni Unnarsdóttur við afhendingu styrksins.

Á hverju ári koma saman hlauparar úr flestum hlaupa­hópum höfuð­borgar­svæðisins og jafnvel víðar að og hlaupa íklæddir bleikum fötum. Það er Hlaupahópur FH sem stend­ur fyrir hlaupinu og félagar hópsins bjóða upp á glæsilegt kökuhlaðborð að hlaupi loknu.

Gríðarlega vel var mætt í Bleika hlaupið þrátt fyrir rok og rigningu.

Hafa safnað 1,8 milljónum kr.

Kallað er eftir frjálsum fram­lögum til styrktar góðu málefni í þágu krabbameinssjúkra og hefur hópurinn m.a. styrkt Ljósið, Kraft og fleiri félög og safnað og gefið samtals tæpar 1,8 millj. kr.

Í ár var safnað fyrir einn hlaupa­­félag­ann, sem barist hefur hetju­lega við krabba­mein, Þórunni Unnars­dóttur sem nýlega hefur getað hafið hlaup með hópnum að nýju. Er þetta í annað sinn sem hlaupa­hópurinn styrkir hlaupa­félaga sem berst við krabbamein.

Nokkrir félagar úr Hlaupahópi FH með hlaupafélaga sínum, Þórunni, sem fékk styrkinn.

Bleika hlaupið var að þessu sinni haldið 5. október í slag­veðursrigningu og var ekki búist við góðri þátttöku. Það var öðru nær og greinilega ætluðu hlauparar ekki að láta veðrið hindra sig í að taka þátt í þessu styrktarhlaupi. Köku­borðið svignaði undan kræs­ing­um og hlaupararnir komu rennblautir til baka úr hlaupinu og nutu glæsilegra veitinganna.

Söfnunarféð var afhent á 90 ára afmælisdegi FH í síðustu viku en alls söfnuðust 350 þúsund kr. Fékk Þórunn stóra ávísun frá hlaupa­­félög­unum en flestir hlaupa­­félagarnir voru þá að halda í ferðalag til Ítalíu þar sem þeir tóku þátt í stóru fjallahlaupi.

Ummæli

Ummæli