Ljóslausir staurar í langan tíma víða um bæinn

Fundað með HS Veitum í vikunni

Ljósleysið er áberandi í skammdeginu.

Óvenju mikið virðist hafa verið um að ekkert ljós sé á ljósastaurum víða um Hafnarfjörð. Á sumum götum er nánast myrkur þar sem nokkrir ljósastaurar í röð eru ljóslausir og hafa verið í marga daga.

Langir kaflar höfðu þar til í morgun verið ljóslausir í nokkra daga í Setberginu

Enn víðar eru stakir staurar ljóslausir og svoleiðis geta þeir verið í margar vikur og íbúar hafa ekki á hreinu hver á að taka við ábendingu.

Íbúar hafa kvartað yfir ljósleysinu á samfélagsmiðlum og í morgun voru starfsmenn HS-veitna að bregðast við vandanum í Setberginu en þar virðist vandinn við marga ljóslausa staura í röð hafa verið leystur í spennistöð þó einstakir ljóslausir staurar séu enn ljóslausir.

Á Lækjargötu hefur þessi staur verið skakkur og ljóslaus í langan tíma sem er á ábyrgð Hafnarfjarðarbæjar.

Í samtali við Fjarðarfréttir segir Sigurður Haraldsson, sviðsstjóri umhverfis- og framkvæmdasviðs Hafnarfjarðarbæjar, að þar á bæ séu menn meðvitaðir um vandann. HS Veitur sér um rekstur á götulýsingu fyrir Hafnarfjarðarbæ og að sögn Sigurðar var búið að senda þjónustubeiðni á HS Veitur en þar hafi seint verið brugðist við.

Segist Sigurður ósáttur með þjónustuna og hefur óskað eftir fundi með fulltrúum HS Veitna í þessari viku þar sem farið verður yfir málin. Segir hann ástandið hafa verið mjög slæmt undanfarið og hafi farið versnandi.

Víða í bænum má sjá ljóslausa staura.

Bæjarbúar geta tilkynnt um ljóslausa staura til Hafnarfjarðarbæjar eða beint til HS veitna.

Tveir staurar við Lækjartorg hafa verið ljóslausir.

Ummæli

Ummæli